Ásta Kristín Davíðsdóttir, yfirlandvörður og sérfræðingur í teymi náttúruverndarsvæða hjá Umhverfisstofnun, segir að náttúruspjöll vegna utanvegaaksturs hafi aukist í Covid-19-faraldrinum. Hún telur aðallega Íslendinga vera að verki.
„Það er búinn að vera mikill ólöglegur utanvegaakstur í kringum höfuðborgarsvæðið. Við erum að reyna að kæra og reyna að vekja athygli á þessu,“ segir Ásta Kristín í samtali við mbl.is.
„Ég held þetta sé aðallega fólk búsett á Íslandi. Auðvitað eru ferðamenn að gera þetta líka en það sem ég verð vör við er allt fólk búsett á Íslandi.“
Í síðustu viku tilkynnti Umhverfisstofnun um náttúruspjöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal á Vigdísarvallaleið.
Ásta Kristín segir að á síðasta ári hafi verið gert ástandsmat á Vigdísarvallaleið og var svæðið metið rautt eftir litakóðakerfi Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæða.
„Svæðið var þá orðið svo illa farið eftir utanvegaakstur sem jókst í Covid-19 faraldrinum og er bara að aukast stöðugt. Þetta er mjög illa farið þarna,“ segir Ásta Kristín.
Hún segir sömu sögu að segja í Bláfjöllum og á fleiri stöðum.
„Þetta er rosalega sorglegt því þetta er alveg gríðarlega fallegt og verðmætt svæði fyrir útiveru og andlega og líkamlega heilsu fólks.“
Ásta segir að þau hjá Umhverfisstofnun verði sjaldan vitni að utanvegaakstrinum heldur tilkynni fólk í útivist á svæðinu verknaðinn.
„Við erum að horfa á mótorhjól, fjórhjól og buggy-bíla. Það er alveg hræðileg innkoma af buggy-bílum þarna,“ segir Ásta Kristín og bætir við að bílar keyri svo í förunum sem myndast.
Hún segir að utanvegaakstur hafi verið bannaður með lögum í um hálfa öld nema fyrir þrjá hópa sem geta fengið undanþágu. Landverðir fái ekki undanþágu til að keyra utanvegar á friðlýstum svæðum.
„Það eru landbúnaðarstörf, björgunarstörf – þegar björgun á sér stað, ekki æfingar – og svo eru það vísindastörf. Þetta er allt nauðsynlegt til að fá undanþágu.“