Vantrauststillaga á stjórn Ferðafélagsins

Kristín I. Pálsdóttir, félagi í Ferðafélaginu og framkvæmdastjóri Rótarinnar, segir …
Kristín I. Pálsdóttir, félagi í Ferðafélaginu og framkvæmdastjóri Rótarinnar, segir tímabært að breytingar verði gerðar innan férlagsins. mbl.is/Ásdís

Kristín I. Pálsdóttir, félagi í Ferðafélagi Íslands, vill leggja fram vantrauststillögu á stjórn Ferðafélags Íslands, vegna viðbragða félagsins við málum er varða kynferðislega áreitni og ofbeldi. Óskar hún eftir því við stjórn að tillagan verði borin upp á félagsfundi félagsins á morgun.

„Ég hef á tilfinningunni að þetta sé eina lausnin. Það ríkir mikil óánægja með það hvernig stjórnin hefur höndlað mál varðandi áreitni og kynferðisbrot,“ segir Kristín, sem einnig gegnir stöðu framkvæmdastjóra Rótarinnar, félags um velferð og lífsgæði kvenna. Hún telur stjórnina ekki hafa trúverðugleika til þess að halda áfram og lítill stuðningur við hana beri þess merki.

Væringar eftir að forseti sagði af sér

Gustað hefur um félagið eftir að Anna Dóra Sæþórsdóttir, forseti félagsins, sagði sig úr því. Gaf hún þá skýringu á brotthvarfi sínu að hún vildi ekki starfa í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi, sem gangi þvert á hennar eigin gildi, réðu ríkjum. 

Stjórn Ferðafélags Íslands hefur boðað til félagsfundar á morgun kl. 20.00 á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík og hefur Kristín óskað eftir því að þar verði vantrauststillagan lögð fram.

Ákvörðunin lá fyrir eftir fund með framkvæmdastjóra og forseta

Kristín segir í samtali við mbl.is að hún hafi ákveðið að leggja fram tillöguna, sem fyrst var greint frá á vef Stundarinnar, eftir að hún fundaði með framkvæmdastjóra og forseta félagsins. 

Hefur hún átt í bréfaskiptum við núverandi forseta þar sem hún óskaði svara við úrvinnslu áreitnis- og ofbeldismála innan félagsins en í stað þess að svara spurningum skriflega var henni boðið á áðurnefndan fund með forseta og framkvæmdastjóra félagsins. 

Býstu við góðri mætingu á fundinn?

„Það finnst mér líklegt. Þetta er fjölmennt félag og það var mikill hvellur þegar Anna Dóra sagði af sér og lýsti því hvernig starfsemi félagsins hefur farið fram. Mér heyrist að allir séu sammála um að það sé kominn tími til að gera breytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert