Beint: Eldsvoði í grennd við Akranes

Ljósmynd/Aðsend

Eldsvoði kom upp á gámasvæði Terra rétt fyrir utan Akranes og er mikill reykmökkur sjáanlegur frá höfuðborgarsvæðinu. 

Uppfært kl. 15:36:

Eldurinn kviknaði í yfir hundrað bílhræjum sem neisti komst að, eftir því sem frá er greint á vef Skessuhorns. Segir þar enn fremur að slökkvilið geti lítið aðhafst, reynt hafi verið að sprauta vatni á eldinn en hann þá aðeins magnast. Þá ræðir Skessuhorn við Garðar Axelsson, varðstjóra hjá lögreglunni á Vesturlandi:

Það var verið að vinna við bílana, að skera undan hvarfakúta og það hljóp neisti líklega í eitthvað gamalt sem hefur lekið undan einhverjum bílnum þarna og það hefur kveiknað eldur út frá því og svo bara kviknað í rest,“ sagði varðstjórinn.

Hægt er að fylgjast með reyknum í beinu streymi mbl.is hér að neðan.

Uppfært 15:44:

 Eldurinn sem logar á gámasvæðinu við Akranes kviknaði útfrá niðurrifi á bílhræjum og logar í um hundrað hræjum þessa stundina. Þetta segir Mariusz Cezary Michalek, verkstjóri hjá Terra á Akranesi, segir í samtali við mbl.is.

Það er fyrirtækið Málma endurvinnsla sem kemur að niðurrifinu og voru starfsmennenn þess að vinna við að því að taka út hvarfakúta úr bílunum. Mariusz segir að kviknað hafi í út frá þeirri vinnu og að fljótlega hafi eldurinn orðið mjög mikill þar sem olíu- og bensínleyfar hafi verið á tönkum einhverra bíla.

Svæðið sem um ræðir er gámasvæði í eigu Akranesskaupstaðar, en þar leigir meðal annars Terra svæði sem og Málma, þar sem eldurinn kviknaði.

Mariusz segir að þarna séu teknir til niðurrifs bílar víða af Vesturlandi, en áformað var að skip kæmi á mánudaginn til að taka brotajárnið í burtu.

Hann segir þrjá slökkviliðsbíla vera á staðnum, en að einhverjir erfiðleikar séu að komast í vatn. Enn logi skært í hræjunum, en að slökkviliðsmönnum hafi eitthvað tekist að minnka eldinn.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert