Eldurinn sem nú logar á gámasvæðinu við Akranes kom upp þegar starfsmenn endurvinnslu á svæðinu voru að skera hvarfakút undan bílhræi sem var á leið til endurvinnslu erlendis. Ekki var fylgt verkreglum sem sögðu til um að taka bílhræin frá bílastæðu áður en skera á hvarfakúta úr.
Þegar kviknaði í barst eldurinn því í mun fleiri bíla og líklega eru um hundrað bílhræ sem nú brenna. Þetta segir Hörður Auðunsson, framkvæmdastjóri Málmu endurvinnslu, en fyrirtækið er með aðstöðu fyrir endurvinnslu sína og brotajárn á svæðinu.
Hörður segir að skip sé væntanlegt til þeirra á mánudaginn og þá hafi verið áformað að koma hræjunum um borð og flytja þau erlendis til endurvinnslu. Þegar er búið að tappa af þeim allri olíu og taka dekk undan bílunum, en eftir stendur þó oft talsvert af plasti og áklæði auk málma.
Beðinn um að lýsa því sem gerðist þegar eldurinn kom upp segir Högni: „Við erum með haug sem er af bílhræjum sem var verið að stafla upp. Svo taka strákarnir eftir að einum hvarfakút sem átti eftir að taka undan. Þeir fylgja ekki alveg verkreglum í því að taka bílinn í burtu og skera undan á öðrum stað, heldur fara bara og skera þetta undir á staðnum og það kemst neisti einhverstaðar í áklæði eða eitthvað, allavega nóg til að það kemur eldur upp og eldurinn fer í annað sem er eldfimt og þá blossar þetta hratt upp.“
Spurður hvort einhver verðmæti hafi glatast þarna segir Högni að þetta sé aðallega rusl og því lítið um eiginleg verðmæti. „Mesti skaðinn sem skeður er fyrir strákana sem voru í þessu að hafa ekki áttað sig hvað þeir voru að gera þarna og hversu steikt þetta var hjá þeim. Að fara þarna og skera þetta þarna undan, aðallega fyrir stoltið.“
Spurður hvort eitthvað gæti hafa verið af olíu á bílunum segir Högni að það hafi verið búið að tæma þá alla af allri olíu. Hins vegar sé aldrei hægt að alveg öllu af bílum og því sé eitthvað minniháttar á sumum tönkum. Hann segir það þó ekki mikið magn, en hjálpi líklega ekki til.
Hann segir að þegar slökkvistarfi verði lokið muni taka við að fara yfir stöðuna og svo verði vonandi hægt að koma því sem eftir verði af bílunum í skipið eftir helgi.