Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, veltir nú fyrir sér að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi um aðra helgi. Hann segist meðvitaður um stærð ákvörðunarinnar og að hann væri eflaust löngu búinn að taka ákvörðun ef hún væri ekki þetta stór.
„Ég er algjörlega meðvitaður um það hversu stór ákvörðun þetta er, ef hún væri ekki svona stór þá væri ég örugglega löngu búinn að taka hana,“ segir Guðlaugur.
Aðspurður um hvort hann hafi gefið sér tímaramma segir hann svo ekki vera þar sem ákvörðunin um framboð til formanns varði fleiri en sjálfan sig.
Fengið fjölda áskorana
Mögulegt mótframboð gegn Bjarna Benediktssyni núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins eru stór tíðindi en Guðlaugur segir ástæðu þess að hann íhugi framboð til formanns vera afar einfalda. Hann hafi fengið fjölda áskoranna og hvatningu frá fólki.
Aðspurður um hvaðan stuðningurinn komi helst og þá hvort stuðningur komi innan úr þingflokknum sjálfum segir Guðlaugur að hann komi víða að og ekki síst eftir að frétt birtist í Morgunblaðinu þess efnis að hann íhugaði framboð til formanns.
„Stuðningurinn hefur komið víða að og ekki síst eftir að umræðan fór fyrst af stað eftir frétt í Morgunblaðinu. Þetta er tilkomið vegna þess að fólk hefur sett sig í samband við mig og hefur áhyggjur af stöðu flokksins af ástæðum sem við þekkjum,“ segir Guðlaugur.
Fjöldaflokkur en ekki kjarnaflokkur
Hann segir fylgið meðal annars ástæðu þess að fólk hafi áhyggjur og segir styrk flokksins liggja í fylginu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn sé fjöldaflokkur en ekki kjarnaflokkur.
„Styrkur flokksins liggur í fólkinu, við erum fjöldaflokkur. Það eru alveg til kjarnaflokkar en við viljum ekki vera slíkur. Okkar styrkur hefur legið í að við höfum nýtt mannauðinn sem er í flokknum. Það er ofsalega mikilvægt að hafa mikinn fjölda trúnaðarmanna sem hægt er að reiða sig á bæði í stuðningi en ekki síður þegar kemur að stefnumótun, ákvörðunum og umræðum um stöðu mála. Ég hef starfað lengi í Sjálfstæðisflokknum og mér hefur fundist þessi þáttur í starfinu, það er breiðfylking þar sem ólíkt fólk tekst á bæði um málefni og menn vera styrkur sem hefur fleytt okkur mjög langt,“ segir Guðlaugur.
Maður á alltaf að líta í eigin barm
Í viðtali við Vísi biður Bjarni Guðlaug að líta sér nær og spyrja sig hvernig sér hafi gengið að afla flokknum fylgis í borginni. Aðspurður hvað honum finnist um orð Bjarna segir Guðlaugur:
„Ég tel það skipta miklu máli að vera með sterka forystu í flokknum í öllum kjördæmum. Við nutum þess og höfum notið þess í gegnum tíðina að við höfum haft mjög sterka forystu. Kosningabaráttan hefur verið rekin þannig áfram að mikil áhersla hefur verið lögð á forystuna, það er ekkert nýtt. Í þessu breytta umhverfi þar sem Reykjavík Norður hefur ekki verið auðveldasta kjördæmið þá er ég eini Sjálfstæðismaðurinn sem hef verið fyrsti þingmaður í því kjördæmi, ekki einu sinni heldur fjórum sinnum. Maður á alltaf að líta í eigin barm en það er einhver ástæða fyrir því að fólk hefur haft samband við mig og hvatt mig áfram."