Mikill verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti og er hæsta verðið allt að 64-90% hærra en það lægsta. Þetta kemur fram í verðkönnun sem FÍB framkvæmdi í vikunni.
Bílaverkstæði No.22 í Reykjavík býður upp á lægsta verðið á umfelgun á 16 tommu álfelgum, og kostar hún 8.500 krónur.
Hæsta verðið er hins vegar hjá Nesdekki þar sem umfelgun á 16 tommu álfelgum kostar 13.990 krónur, og því er verðmunur um 65%.
Bifreiðaverkstæði Borgarfjarðar er með lægsta verðið á umfelgun á 18 tommu álfelgum, þar sem umfelgun kostar um 10.000 krónur. Lægsta verðið á höfuðborgarsvæðið er hjá Bílaverkstæði No.22 þar sem umfelgun kostar 11.500 krónur.
Hæsta verðið á umfelgun á 18 tommu álfelgum er eins og í fyrra skiptið, hjá Nesdekki en þar kostar umfelgun um 18.990 krónur. Því nemur verðmunurinn um 90% milli hæsta og lægsta verðs.
Í tilkynningu frá FÍB segir að það megi gera ráð fyrir að álfelgur séu undir 70% fólksbíla hérlendis. Einnig kemur fram að ekki var spurt um gæði þjónustunnar við gerð verðkönnunarinnar.