„Miklar rangfærslur um rekstur félagsins“

Sigrún Valbergsdóttir, forseti Ferðafélags Íslands.
Sigrún Valbergsdóttir, forseti Ferðafélags Íslands. mbl.is/RAX

Sigrún Valbergsdóttir, forseti Ferðafélags Íslands, segir að það hafi verið eins og beita ætti öllum brögðum við að taka yfir félagið og koma að nýju fólki. Hún segir félagsmönnum frjálst að koma með ályktanir eða hvað sem er undir önnur mál á fundi félgsins sem fram fer í kvöld.

Aðspurð um hvort hún telji að Kristín I. Pálsdóttir, framkvæmdastýra Rótarinnar og félagi í Ferðafélagi Íslands, muni leggja fram vantrauststillögu á fundinum segir Sigrún: „Á félagsfundi þá geta félagar komið með ályktanir eða hvað sem þeir vilja undir önnur mál. Ef þetta er allt saman lögfræðilega rétt gert þá greiða félagar væntanlega atkvæði um það á fundinum.“

Finna fyrir stuðningi og vilja að fólk viti stöðu mála

Sigrún segir að telji að margir muni mæta á fundinn í kvöld og þar af margt stuðningsfólk. Þá segir hún félagið hafi aldrei staðið betur og vilji að félagsmenn viti nákvæmlega hver staða mála sé.

„Það eru mjög margir sem ætla að mæta og náttúrulega margt stuðningsfólk sem veit hvernig þessu er stjórnað og fyrir hvað félagið stendur. Við ætlum að leyfa fólki að heyra nákvæmlega hvernig staðan er, þarna verða löggiltir endurskoðendur félagsins o.s.frv. en allir reikningar hafa nú þegar verið lagðir fram á aðalfundi. Þetta er ótrúleg herferð á hendur okkur öllum hinum sem sitjum í stjórn og framkvæmdastjóra,“ segir Sigrún

Miklar rangfærslur um rekstur félagsins

Ferðafélag Íslands hefur sjaldan staðið betur þrátt fyrir heimsfaraldur en aðeins mánuði eftir að greint hafi verið frá því hafi aðilar haldið því fram að félagið væri illa rekið. Sigrún telur að markmiðið hafi verið að beita öllum brögðum til þess að koma nýju fólki að.

„Það hafa verið miklar rangfærslur um rekstur félagsins og við viljum bara færa þessa hluti til rétts vegar því félagið hefur aldrei staðið betur og aldrei verið blómlegra. Þetta er auk þess í kjölfar heimsfaraldurs sem hafði mjög mikil áhrif á t.d. skálagistingu hjá félaginu. Í mars var aðalfundur þar sem fráfarandi forseti greindi frá stöðu mála sem hafði aldrei verið betri og mánuði seinna þá héldu aðilar því fram að félagið væri mjög illa rekið. Það átti bara að yfirtaka Ferðafélagið, koma með nýtt fólk og beita öllum brögðum til þess að gera það," segir Sigrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert