Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur skipað starfshóp til að móta borgarstefnu. Markmið hópsins er að efla stærstu þéttbýlissvæði landsins, Reykjavík og Akureyri.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Hlutverk hópsins er tvíþætt, annars vegar að skilgreina hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og að stuðla að aukinni samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins. Og hins vegar að skilgreina hlutverk Akureyrar sem svæðisborgar og mögulega uppbyggingu þar.
Formaður starfshópsins er Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi eru í starfshópnum. Einnig má finna bæjarfulltrúa frá Akureyri og framkvæmdastjóra í hópnum.
„Það er mjög mikilvægt að hlutverk og skyldur Reykjavíkur og Akureyrar séu skoðuð í samhengi. Í almennri umræðu er það full áberandi hversu mikið er ýtt undir ríginn milli borgar og landsbyggðar. Akureyri og Reykjavík eiga margt sameiginlegt og mikilvægt að rækta samband og samskipti þessara tveggja staða auk þess sem horft er á hvernig þær þjóna nærsvæðum sínum og öfugt. Ég bind miklar vonir til þess að starf hópsins verði frjótt og efli landið allt,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni í tilkynningu.