Skoða að loka Reykjadal hluta úr ári

Reykjadalur er vinsæl gönguleið meðal erlendra ferðamanna og skyldi engan …
Reykjadalur er vinsæl gönguleið meðal erlendra ferðamanna og skyldi engan undra. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að annað hvort þurfi að setja aukið fjármagn í eftirlit og þjónustu við gesti Reykjadals í Ölfusi eða að „tempra einhvern veginn aðgengið“ að svæðinu.

Mikið af rusli og fatnaði var í Reykjadalnum á laugardagsmorgun þegar Krzysztof Bronszewski kom þar að garði. Hann segir að svæðið hafi verið hreinsað aðeins tveimur vikum áður.

Elliði segir sveitarfélagið Ölfus ekki vera landeiganda á svæðinu og hafi engar tekjur af Reykjadalnum, þó hann sé í sveitarfélaginu.

„Við höfum verið að axla ábyrgð í samstarfi við nágrannasveitarfélög og ríkið með landvörslu en það er alveg ljóst að það þarf að finna einhvern flöt á þessu. Umferðin um Reykjadalinn er þvílík að annað hvort þarf að setja aukið fjármagn í eftirlit og þjónustu við svæðið eða hreinlega að tempra einhvern veginn aðgengið,“ segir Elliði í samtali við mbl.is.

„Við höfum líka lýst því yfir að við værum alveg til í að loka dalnum hreinlega yfir hluta ársins og láta náttúruna njóta vafans ef efni standa til þess,“ segir Elliði.

„Umhverfisstofnun og fleiri aðilar eru betur til þess fallnir að meta hversu mikið álag dalurinn þolir og hvernig honum yrði best þjónustað.“

Mikið af fötum og rusli var í Reykjadalnum á laugardaginn.
Mikið af fötum og rusli var í Reykjadalnum á laugardaginn. Ljósmynd/Facebook

Vilja skoða orkunýtingu á svæðinu

Reykjadalurinn er ekki friðlýstur en hann er á náttúruminjaskrá. Elliði segir það hafa komið til umræðu að friðlýsa Reykjadalinn, en þó með skilyrðum.

„Svæðið í kringum Reykjadalinn er mjög ríkt af orku og við viljum sjá fram á orkunýtinguna á svæðinu áður en við friðlýsum. Við höfum upplýst Umhverfisstofnun um þetta.

Við höfum lýst vilja til þess að fara í tiltölulega þrönga friðlýsingu á Reykjadalnum. Að skoða það að friðlýsa frá toppum fjallana niður í botn dalsins. Við höfum ekki viljað taka stærri skref fyrr en búið er að sjá út úr hvernig eigi að nýta orkuna á svæðinu í kringum Hengilinn og Ölkelduháls og víðar,“ segir Elliði.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Litlir hagsmunir fyrir íbúa Ölfuss

„Það sem gerir málið snúið er að Reykjadalurinn er í Ölfusi er er eitt helsta aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustu í Hveragerði. Þetta eru ekki stórir hagsmunir fyrir almenna íbúa í sveitarfélaginu Ölfusi. Þess vegna er erfitt að réttlæta það að nota skattpeninga íbúa hér til þess að greiða fyrir aðgengi erlendra ferðamanna að perlum í sveitarfélaginu.“

Hveragerðisbær innheimtir bílastæðagjöld hjá ferðamönnum sem vilja ganga Reykjadalinn. Elliði segir gott samtal vera á milli sveitarfélaganna tveggja og ýmsar útfærslur verið ræddar um þjónustu á svæðinu.

Þá vill Elliði sjá ríkið, sem á landið sem um ræðir, taka meiri þátt í umræðunni.

„Ríkið er landeigandi og hefur hæstu tekjurnar af ferðaþjónustu og eðlilegt er að ríkið axli ábyrgð eða þá að loka fyrir aðgengi ef það er það sem vilji er fyrir,“ segir Elliði.

Landverðir sjái mest um friðlýst svæði

Ásta Krist­ín Davíðsdótt­ir, yf­ir­land­vörður og sér­fræðing­ur í teymi nátt­úru­vernd­ar­svæða hjá Um­hverf­is­stofn­un, segir í samtali við mbl.is að landverðir sjái almennt ekki um svæði eins og Reykjadalinn sem eru ekki friðlýst.

„Yfirleitt eiga landverðir bara að vera á friðlýstum svæðum,“ segir Ásta Kristín en bætir við að auðvitað væri mjög gott að geta haldið utan um svæðið.

„Það er alltaf sveitarfélag, landeigandi eða Náttúrufræðistofnun eða einhver sem kemur með tillögu um friðlýsingu út af einhverju sérstöku eða vegna vilja landeiganda.“

Hún segir Umhverfisstofnun lítið skipta sér af svæðinu nema ef um er að ræða einhverja hættu eða eitthvað slíkt. Til dæmis hafi einu sinni þurft að loka dalnum tímabundið þegar hver myndaðist undir göngustíg.

Ásta Kristín Davíðsdóttir.
Ásta Kristín Davíðsdóttir. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert