Allt tiltækt slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar er enn að störfum við athafnasvæði Terra þar sem eldur blossaði í um hundrað bílhræjum, í grennd við Akranes.
Unnið er að því að rífa hauginn í sundur og kæla svæðið til þess að koma í veg fyrir að það kvikni aftur eldur.
Þetta segir Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri Akraness og Hvalfjarðarsveitar, í samtali við mbl.is.
„Þetta er umfangsmikið verkefnið, við kölluðum út allt tiltækt slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar.“
Jens segir að ekki hafi gengið illa að komast í vatn, heldur vegna stærðargráðu eldsvoðans þurfti slökkviliðið að fá auknar bjargir. Tankbíll slökkviliðs Borgarbyggðar var kallaður á vettvang til aðstoðar.
„Það mætti vera meira vatn hérna á svæðinu, en aðal ástæðan er sú að eldsmagnið var svo mikið, að við þurftum bara svo ofboðslegt magn af vatni.“
Gríðarlegur reykur steig upp frá eldinum og segir Jens að slökkviliðið sé búið að hafa samband við heilbrigðisyfirvöld á svæðinu og lögreglu vegna þess.
Tilkynningin hefur verið send á íbúa þar sem þeir er beðnir að hafa auga með reykmökkinum og tilkynna það ef reykurinn slær yfir bæinn.
Spurður út í mögulegt verklagsbrot segir Jens litlu geta svarað, en slökkviliðið mun afhenda lögreglu vettvanginn þegar slökkviliðsstörfum er lokið.