Unnur Þorsteinsdóttir, nýr forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, var valin fimmta áhrifamesta vísindakona í heiminum og sú áhrifamesta í Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.
Research.com tók saman lista yfir þúsund bestu vísindakonur í heiminum sem byggist á greiningu á rannsóknaframlagi yfir 160 þúsund vísindakvenna.
Þar segir að vefurinn birti nú í fyrsta sinn lista yfir fremstu vísindakonur heims en með því vilji forsvarsmenn vefsins draga fram afrek kvenna í geira þar sem karlmenn hafa lengi verið í miklum meirihluta.
Research.com bendir á að konur séu aðeins þriðjungur starfsfólks í vísindum og þá sýni rannsóknir að síður sé vísað í vísindakonur en -karla, og framlag þeirra síður metið.
Unnur er eina íslenska konan á listanum en Research.com segir tilvitnanir í rannsóknir Unnar vera hátt í 190 þúsund. Á tímabilinu sem liggur til grundvallar listans hefur Unnur rúmlega 460 birtingar.
Hér má sjá listann í heild sinni.