Á sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarsögu

Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Angjelin Serkaj …
Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Angjelin Serkaj sést hér fyrir miðri mynd. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mál þetta á sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarsögu á síðari tímum,“ segir í dómi Landsréttar í Rauðagerðismálinu sem féll í dag. Þar þyngdi Landsréttur dóm héraðsdóms yfir Angjelin Sterkaj auks þess að sakfella þrjú önnur sem héraðsdómur hafði áður sýknað.

Sterkaj hlaut 20 ára dóm á meðan þau Sheptim Qerimi, Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho og Murat Selivrada voru öll dæmd í 14 ára fang­elsi.

Í dómi Landsréttar segir, að ásetningur Angjelin til drápsins hafi verið einbeittur og gat ekki helgast af neyðarvörn. Dómurinn segir enn fremur að þau Claudia, Murat og Sheptim hafi hlotið að vera ljóst, að virtum gögnum málsins, að langlíklegast væri að Angjelin hygðist ráða Arm­ando Beqirai af dögum.

„Með þátttöku í skipulagningu og öðrum undirbúningi þess að ákærði, Angjelin, gæti hitt A [Arm­ando Beqirai] einan fyrir utan heimili hans verður samkvæmt öllu framansögðu talið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi átt verkskipta aðild að því að A var ráðinn af dögum og um samverknað allra ákærðu hafi verið að ræða,“ segir í dómi Landsréttar. 

Þá er tekið fram, að málið eigi sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarsögu á síðari tímum.

„Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að atlaga ákærða, Angjelin, að A var þaulskipulögð og í senn ofsafengin og miskunnarlaus, en ákærði gekk að A og skaut hann af stuttu færi viðstöðulaust níu skotum í brjóst og höfuð. Var ásetningur ákærða til að bana A afar einbeittur. Ákærðu frömdu brotið í félagi og verður það virt þeim til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga,“ segir Landsréttur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert