Barn flutt á bráðamóttöku eftir fall

Barn var flutt á bráðamóttöku Landspítala til skoðunar í gær …
Barn var flutt á bráðamóttöku Landspítala til skoðunar í gær eftir að hafa fallið á jörðina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barn var flutt á bráðamóttöku Landspítala til skoðunar í gær eftir að hafa fallið á jörðina. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að slysið hafi átt sér stað í miðbæ Reykjavíkur en ekki er tekið fram hvort barnið hafi slasast alvarlega eða hvort fallið hafi verið hátt.

Þá barst lögreglu einnig tilkynning um einstakling á rafhlaupahjóli sem hafði fallið og var sá einnig fluttur á bráðamóttöku til skoðunar. Samkvæmt dagbókinni hafði einstaklingurinn talið sig hafa misst stjórn á hjólinu vegna ísingar.

Innbrot og þjófnaður í hverfi 105

Síðar í gær var óskað eftir aðstoð lögreglu í hótel í hverfi 105 vegna einstaklings sem var grunaður um þjófnað. Manneskjan var ölvuð og ósátt með afskiptin og gerði tilraun til að hrækja á lögreglumenn. Einstaklingurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Þá var tilkynnt um tvö innbrot í fyrirtæki í sama hverfi.

Í Kópavoginum féll maður niður af þaki húsnæðis sem verið var að vinna við. Sá var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar en meiðsli voru ekki talin alvarleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert