Úsbekinn Nodirbek Abdusattarov gerði sér lítið fyrir í gærkvöldi og vann sigurvegara tveggja síðustu áskorendamóta, Rússann Jan Nepomniachtchi, 4:0 í einvígi þeirra á heimsmeistaramótinu í Fischer-random eða slembiskák, eins og nafn greinarinnar hefur verið þýtt á íslensku.
Þessi 18 ára gamli piltur hafði tryggt sig áfram í útsláttarkeppni fjögurra efstu skákmanna áður en lokadagur undankeppninnar rann upp. Með því að vinna báðar skákirnar gegn Nepo í gær var hann kominn með 9 ½ vinning af 10 mögulegum sem er fáheyrð frammistaða í móti af þessum styrkleika. Hann slakaði örlítið á í seinna einvíginu við Wesley So og tapaði, ½:1½. Filippseyingurinn, sem er núverandi heimsmeistari í greininni, verður að láta sér lynda að tefla um 5. sætið við Rússann Fedoseev. Nepo fylgir Abdusattarov í úrslitakeppnina og mætir Magnúsi Carlsen á morgun, laugardag, en keppendur fá frí í dag.
Hægt er að lesa umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.