„Erfitt að vera samkynhneigður í Slóvakíu“

Zuzana Čaputová, forseti Slóvakíu, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, …
Zuzana Čaputová, forseti Slóvakíu, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hittust við forsetahöllina undir heiðursverði. Ljósmynd/Forseti.is

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú eru væntanleg hingað til lands seint í kvöld eftir opinbera heimsókn til Slóvakíu. Segir Guðni heimsóknina hafa verið afar ánægjulega og til þess fallna að efla samstarf Íslands við Slóvakíu á sviði jarðhitanýtingar, rannsókna og nýsköpunar.

„Með okkur voru fulltrúa úr viðskiptalífinu sem hyggjast efla samstarf við Slóvaka á sviði jarðhitanýtingar. En fyrir þeim hópi fór Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri. Í gær [fimmtudag] var svo haldið mikið málþing og er ljóst að Slóvakar vilja nýta þessa auðlind betur. Er það einkum vegna áherslna þeirra á græna orku en ekki síður til að losna undan olíu og gasi frá Rússum,“ segir Guðni, en hann var á leið í flug þegar mbl.is náði tali af honum. „Strax eftir þetta þing sköpuðust sambönd og hugmyndir um samstarf sem lofa góðu. Íslensk fyrirtæki hafa nú þegar látið að sér kveða í Slóvakíu en nú á heldur betur að gefa í á þessum vettvangi,“ bætir hann við.

Vert er að geta þess sérstaklega að á sama tíma og Guðni forseti sat málþingið um jarðhitanýtingu sat Eliza forsetafrú vel sótt málþing um jafnréttismál. 

Forsetahjónin, heilbrigðisráðherra og íslenskir læknanemar.
Forsetahjónin, heilbrigðisráðherra og íslenskir læknanemar. Ljósmynd/Forseti.is

Í sendinefnd forseta var einnig Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og ávörpuðu þeir íslenska læknanema, starfsfólk og stjórn Komeníusarháskóla í borginni Martin. Þar stunda nú 171 Íslendingur nám í læknisfræði við Jessenius-læknadeildina. Til fundarins voru einnig boðnir íslenskir nemendur í dýralæknisfræðum við háskólann í Košice í austurhluta Slóvakíu.

„Við kynntum okkur skólann og námið. Þetta er mjög góð og mikilvæg viðbót enda getum við illa menntað alla okkar lækna heima á Íslandi. En svo er auðvitað einnig nauðsynlegt að fólk sæki sér reynslu og menntun úti í hinum stóra heimi,“ segir Guðni.

Verk að vinna í málefnum hinsegin fólks

Hinn 13. október sl. voru tveir menn skotnir til bana fyrir utan hinsegin skemmtistaðinn Tepláreň, helsta athvarf hinsegin fólks í höfuðborginni Bratislava. Til að votta virðingu sína funduðu forsetahjónin með fulltrúum hinsegin samfélagsins í Slóvakíu og lögðu blómvendi við vettvang ódæðisverksins fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Funduðu þau einnig með eiganda barsins. 

Forsetahjónin lögðu blómvendi fyrir utan hinsegin skemmtistað hvar tveir voru …
Forsetahjónin lögðu blómvendi fyrir utan hinsegin skemmtistað hvar tveir voru myrtir nýlega. Ljósmynd/Forseti.is

„Við ræddum stöðu hinsegin fólks en það er ljóst að mjög erfitt er að vera samkynhneigður í Slóvakíu. Íhaldssöm gildi margra hér valda því að hinsegin fólk er litið hornauga, sætir aðkasti og getur orðið fyrir miklu ofbeldi eins og þessi skelfilegi atburður sýnir. Það er því verk að vinna á þessum vettvangi. En forseti Slóvakíu er talsmaður umbóta, umburðarlyndis og víðsýni. Hún fagnaði því mjög að við hjónin skyldum fara á þennan stað til að ræða við fulltrúa hinsegin samfélagsins,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert