Fjórir ákærðir í 100 kg kókaínmáli

Efnin sem fundust í timbrinu.
Efnin sem fundust í timbrinu. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært fjóra menn í stóru kókaínmáli sem fyrst var greint frá í ágúst, en flytja átti efnin til landsins með timbursendingu frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi.

Anna Barbara Andradóttir, saksóknari hjá embættinu, staðfestir að ákæra hafi verið gefin út í málinu gagnvart mönnunum fjórum, en Rúv greindi fyrst frá ákærunum.

Efnin fundust við leit hollenskra löggæsluyfirvalda, en gerviefnum var komið fyrir í staðinn. Sagði í tilkynningu lögreglu í ágúst að grundvöllur leitarinnar hafi verið upplýsingar frá íslenskum löggæsluyfirvöldum, byggðar á frumkvæðisrannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi.

Einn maður var handtekinn eftir að hafa sótt gám með sendingunni og þrír aðrir í kjölfarið. Voru þeir svo úrskurðaðir í gæsluvarðhald og ætlar héraðssaksóknari að óska eftir framlengingu varðhaldsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert