Hraðalækkunartillögur kynntar undir fölsku flaggi

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir hraðalækkunartillögur hafa verið kynntar undir fölsku flaggi og telur að samráð hafi átt að eiga sér stað við atvinnurekendur á svæðinu. Hún segir hraðalækkunina vera miklu víðtækari en snúi að skólastarfi Hagaskóla sem er með tímabundið húsnæði í Ármúla.

Samþykkt var í umhverfis- og skipulagsráði í gær að lækka hámarkshraða í Ármúla, Fells­múla, Hall­ar­múla, Háa­leit­is­braut, Lág­múla, Selmúla, Síðumúla og Veg­múla. Þessar aðgerðir eru í samræmi við hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar.

„Við fengum þetta til afgreiðslu í skipulagsráði á dögunum og var lækkun hámarkshraða kynnt sem aðgerð þar sem Hagaskóli er að hluta til starfandi í Ármúlanum. Við styðjum auðvitað að hraði í kringum Ármúlann sé lækkaður og teljum raunar líka að það þurfi að endurstilla gönguljós og annað til þess að tryggja öryggi barna sem eru þarna á ferðinni. Þetta eru miklu víðtækari hraðalækkanir en þær sem snúa bara að skólastarfi í Ármúlanum. Okkur fannst því þessar hraðalækkunartillögur kynntar undir fölsku flaggi og við kölluðum líka hreinlega eftir því að samráð yrði haft við atvinnurekendur á svæðinu, hvort þetta sé eitthvað sem þau kalla eftir. Við sátum hjá við afgreiðslu þessa máls,“ segir Hildur.

Ekki tímabundin aðgerð

Lækkun hámarkshraða er ekki tímabundin aðgerð en ákveðinn misskilningur var hjá einhverjum sem töldu að um tímabundna aðgerð hafi verið að ræða. Þá segir Hildur hraðalækkunina miklu víðtækari en snúi að skólastarfi Hagaskóla. 

„Það olli ákveðnum misskilningi við afgreiðslu málsins að sumir töldu að þarna væri um að ræða tímabundna aðgerð. Þessi aðgerð er ekki tímabundin en foreldrar telja að öryggi barna sé ekki tryggt þarna í Ármúlanum en þessi hraðalækkun er miklu víðtækari en snýr að þessu skólastarfi. Við hefðum viljað þetta hefði verið kynnt undir réttum formerkjum, að þarna væri verið að lækka hámarkshraða á öllu þessu atvinnusvæði. Best hefði verið að kalla fram sjónarmið atvinnurekenda á svæðinu,“ segir Hildur.

Háværar raddir um útvíkkun gjaldskyldu

Umhverfis- og skipulagsráð hefur auk þess samþykkt að láta gera breytingar á gjaldsvæðum bílastæða í borginni. Ástæður þess má rekja til niðurstöðu talninga sem sýna mikla og stöðuga nýtingu bílastæða á jöðrum gjaldsvæða. Hildur segir háværar raddir um útvíkkun gjaldskyldu hafa en að gott hefði verið að kalla fram sjónarmið íbúanna áður en ákvörðun var tekin.

Stækkunin nær til þeirra svæða sem dökk lína hefur verið …
Stækkunin nær til þeirra svæða sem dökk lína hefur verið dregin utan um. Kort/mbl.is

„Það sama má raunar segja við útvíkkun gjaldskyldu, það er auðvitað þannig að borgarland er gríðarlega verðmætt og það kann að vera eðlilegt að rukka gjald fyrir notkun á því. Við kölluðum einnig eftir því að samráð yrði haft við íbúa á svæðinu. Við höfum heyrt háværar raddir um útvíkkun gjaldskyldu, þá aðallega til þess að fólk sé ekki að leggja í hverfunum og taka stæði að næturlagi af íbúum. Það hefði þó verið gott að kalla fram sjónarmið íbúanna áður en ákvörðun var tekin,“ segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert