Dauðsföll sem tengja má við Covid-19 hafa rokið upp á þessu ári og hafa aldrei verið fleiri, en 174 hafa látist á þessu ári til loka júlímánaðar á móti 39 samanlagt árin 2020 og 2021 sem er sláandi munur. Sóttvarnarlæknir segir þó dánartíðni vegna Covid-19 lægsta á Íslandi miðað við hin Norðurlöndin.
Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir segir að dauðsföll sem tengjast Covid-19 hafi tekið mikið stökk á þessu ári, sérstaklega í febrúar mars og svo aftur í júní og júlí. Hún segir að búast megi við hærri tölum þegar árið er búið. Ástæður þessa stökks gætu verið vegna gífurlega smitandi Ómíkron-afbrigðis veirunnar og eins að öllum samkomutakmörkunum var hætt í febrúar á þessu ári.
„Það sem af er af árinu hafa 174 manns látist miðað við að 2021 voru 8 sem létust og 2020 voru 31. Við erum með tölur bara út júlí svo talan er líklega eitthvað hærri, en við fáum tölur fyrir ágúst í lok vikunnar,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.
Í nýrri skýrslu sem birt var á vef stjórnarráðsins á þriðjudag um áfallastjórnun stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum eru ýmis töluleg gögn þar sem m.a. eru borin saman dauðsföll á Norðurlöndum. Þar er hins vegar árið 2022 ekki tekið með og þegar Ásthildur Elva Bernharðsdóttir dósent á Bifröst og einn höfunda skýrslunnar er spurð hvað valdi því, segir hún að þessi tölulegu gögn hafi komið frá norrænum hagstofum og verkefni höfunda skýrslunnar hafi ekki verið heilbrigðishlutinn heldur viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum.
„Í okkar úttekt erum við að greina áfallastjórnunina, það er hvernig stjórnvöld voru undirbúin og brugðust við áfallinu. Samkvæmt aðferðafræðinni þá mörkum við tíma þeirrar greiningar frá upphafi viðbragða og þar til sóttvarnaraðgerðum lýkur,“ segir Ásthildur.
- En er þetta ekki að skekkja niðurstöðurnar í nýju Covid-19 skýrslunni, þegar þessi mikli fjöldi látinna á þessu ári er ekki tekinn með?
„Það er mjög erfitt að bera saman tölur yfir „skot“ þar sem það er mjög misjafnt milli landanna hversu mikil áhersla hefur verið lögð á að gera próf, eins og nefnt er í skýrslunni, og þegar útbreiðslan varð sem mest í kjölfar afléttinga létu mörg vera að fara í próf,“ segir Ásthildur og leggur aftur áherslu á að hlutverk þeirra hafi verið að skoða viðbrögð stjórnvalda.
Guðrún Aspelund tekur undir að það þurfi að taka samanburðartölum með ákveðnum fyrirvara, bæði vegna mismunandi mælinga og eins vegna þess að allar tölur miði við staðfest smit, sem gefa líklega ekki raunsanna mynd og búast megi við að fleiri hafi smitast en hafa verið mældir.
Guðrún segir að reyndar hafi þessir toppar í dauðsföllum á þessu ári líka átt sér stað á hinum Norðurlöndunum.
„Ef þú berð Ísland saman við Norðurlöndin erum við Íslendingar ennþá með lægstu dánartíðnina.“ Hún segir að næst komi Noregur og flest dauðsföll hafi verið í Finnlandi og Svíþjóð sé ennþá hæst. Hún segir að ástæða þessa megi líklega annars vegar rekja til Omikron faraldursins en þau afbrigði kórónaveirunnar voru geysilega smitandi og urðu landlæg alls staðar og ekki bara hérlendis og hins vegar til að slakað var á samkomutakmörkunum eða þeim alveg hætt.
Á kortinu hér fyrir neðan má sjá dauðsföll tengd Covid-19 á Norðurlöndunum á þessu ári samkvæmt Our World Data.
- En hvernig er skilgreiningin hérlendis á andláti vegna Covid-19?
„Þetta eru dánarvottorð þar sem Covid-19 er annað hvort metin af lækni sem orsök dauðsfalls eða meðvirkandi þáttur, sem þýðir að það sé ekki aðal orsök dauðsfallsins. En við tökum það samt með í þessum tölum, því á þessu stigi er ekki hægt að vita með fullri vissu að smitið hafi ekki átt þátt í dauðsfallinu,“ segir Guðrún.
Þegar skoðaðar eru upplýsingar frá Our World in Data er listi yfir nýgengi Covid-smita eftir löndum. Hafa verður þann fyrirvara að mismunandi er hvernig lönd standa að þessum mælingum.
Ísland skipar 31. sæti listans og er aðeins Finnland ofar af Norðurlöndunum, eða í 29. sæti. Danmörk er í 45. sæti og Noregur í því 47. en hins vegar er Svíþjóð talsvert aftar, eða í 93. sæti. Hvað getur valdið þessum mun hérna? Eru Svíar minna að mæla smit en hinar Norðurlandaþjóðirnar eða eru viðbrögð þeirra í upphafi faraldurs að skila sér í meira ónæmi gegn veirunni?
Þegar Guðrún er spurð um þetta segist hún ekki vita nákvæmlega um þennan samanburð.
„Sýnatökur eru mjög mismunandi í löndum bæði hjá almenning og sjúkrastofnunum. Sums staðar tekið mjög lítið af sýnum, eða fólk notar bara heimapróf, þannig að gögn um smit eru ekki alltaf áreiðanleg.“