Ólafur Eiríksson, lögmaður Jóns Hilmars Karlssonar, segir líklegt að dómi héraðsdóms í máli Jóns gegn þrotabúi föður hans, Karls Emils Wernerssonar, verði áfrýjað.
Jón var dæmdur til að greiða þrotabúi föður síns 464 milljónir króna auk dráttarvaxta í tæplega fjögur ár. Gjafagerningi Karls, sem sneri að sölu allra hluta Lyfja og heilsu til sonar síns, var rift af héraðsdómi í dag.
Kröfu þrotabúsins, þess efnis að afsala aftur til þrotabúsins öllum hlutum í Toska ehf. gegn greiðslu frá þrotabúinu á söluverði hlutanna, var vísað frá dómi.
Bú Karls var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl árið 2018. Þrotabúið gerði í málinu kröfu um riftun á sölu Karls á Toska til sonar hans í aðdraganda gjaldþrotaskiptanna og byggði þá kröfu annars vegar á 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hins vegar 141. gr. sömu laga.