Anton Guðjónsson
Oddgeir Einarsson, verjandi Angjelin Sterkaj sem var í dag dæmdur í 20 ára fangelsi í Landsrétti fyrir að hafa orðið Armando Beqirai að bana við heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík í fyrra, telur niðurstöðu Landsréttar vera lögfræðilega ranga.
„Ég tel niðurstöðuna lögfræðilega ranga. Það er mjög afgerandi þannig. Það er mjög margt í þessu sem er túlkað ákærðu í óhag. Sérstaklega það að um samverknað hafi verið að ræða. Það leiði síðan til refsiþyngingar hjá Angjelin ,“ segir Oddgeir í samtali við mbl.is.
Sheptim Qerimi, Claudia Sofia Coelho Carvalho og Murat Selivrada sem voru sýknuð í héraðdómi voru nú öll dæmd í 14 ára fangelsi.
„Ein af ástæðunum sem gefnar eru fyrir því er samverknaður, það er að segja að fleiri en einn eru taldir hafa framið brotið,“ segir Oddgeir.
Hann segir að Landsréttur hafi túlkað sem svo að Sterkasj, Qerimi, Carvalho og Selivrada hafi öll fjögur verið aðalmenn og beri ábyrgð á manndrápinu.
„Eitthvað sem við teljum vera algjörlega rangt.“
Oddgeir telur dóminn vera þann þyngsta sem hefur fallið á Íslandi. Hann ætlar sér að óska eftir því að áfrýja málinu til Hæstaréttar.