Þarf að borga þrotabúi föður síns 464 milljónir

Málið var dómtekið 2. september, það var höfðað með stefnu …
Málið var dómtekið 2. september, það var höfðað með stefnu birtri 19. desember 2018. Stefnandi er þrotabú Karls Emils Wernerssonar og stefndi er Jón Hilmar Karlsson. Samsett mynd

Héraðsdómur Reykjaness hefur rift ráðstöfun Karls Emils Wernerssonar frá árinu 2014 á sölu allra hluta í Toska ehf. til sonar síns, Jóns Hilmars Karlssonar. Þá er Jón dæmdur til að greiða þrotabúi Karls Emils Wernerssonar 464 milljónir kr. auk dráttavaxta í tæplega fjögur ár.

Toska var móðurfélag Faxa sem átti félagið Faxar, en það félag átti nær allt hlutafé í Lyfjum og heilsu.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að það sé mat dómsins …
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að það sé mat dómsins að horfa beri til þess að ekki var um viðskipti að ræða sem grundvölluðust á armslengdarsjónarmiðum þar sem viðskiptin áttu sér stað á milli félaga í eigu sama aðila. Á myndinni má sjá Karl Wernersson. mbl.is/Rósa Braga

Bú Karls var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl árið 2018. Þrotabúið gerði í málinu kröfu um riftun á sölu Karls á Toska til sonar hans í aðdraganda gjaldþrotaskiptanna og byggði þá kröfu annars vegar á 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hins vegar 141. gr. sömu laga.

Í dómi héraðsdóms, sem féll í gær, var talið að salan á Toska hefði farið fram fyrir það 24 mánaða tímamark sem mælt væri fyrir um í 131. gr. laganna og var Jón því sýknaður af riftunarkröfu á þeim grundvelli.

Á hinn bóginn var fallist á að um hefði verið að ræða ótilhlýðilega ráðstöfun þrotamanns í aðdraganda gjaldþrots hans og að Karl hefði á því tímamarki sem ráðstöfunin fór fram verið ógjaldfær.

Þá var talið að Jón, sem er sonur Karls, hefði verið grandsamur um ógjaldfærni föður síns er hann eignaðist Toska.

Var krafa um riftun ráðstöfunarinnar því tekin til greina á grundvelli 141. gr. fyrrgreindra laga og stefnda gert að greiða þrotabúinu sem nam tjóni þess vegna sölunnar, sem fyrr segir. 

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að bæði hefði ráðstöfun Toska til Jóns verið rift og að hann ætti að greiða 464 milljónir til þrotabúsins. Hið rétta er að ráðstöfunni er rift og felur það í sér að hann þurfi að greiða 464 milljónir vegna gjörningsins. Hefur frétt og fyrirsögn verið löguð samkvæmt því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert