Vann fullnaðarsigur í Hæstarétti

Ingibjörg og Steinar kampakát eftir dómsúrskurð Hæstaréttar á miðvikudaginn.
Ingibjörg og Steinar kampakát eftir dómsúrskurð Hæstaréttar á miðvikudaginn.

„Þetta er endanleg niðurstaða úr tvöfaldri umferð,“ segir Steinar Berg um dómsúrskurð Hæstaréttar á miðvikudag í máli eiginkonu hans, Ingibjargar Pálsdóttur, gegn Veiðifélagi Grímsár og Tunguár.

 Í dómsorði kemur fram að stefnda, Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, „sé óheimilt án samþykkis allra félagsmanna sinna að selja veiðihúsið að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti-og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitímabils samkævmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.“

„Þetta er mál sem ég er búinn að vera með núna á bakinu í tíu ár,“ segir Steinar en Ingibjörg, sem er skráður eigandi Fossatúns, fór fyrst í mál gegn veiðifélaginu árið 2011.

Forsaga málsins

Árið 2001 keyptu Steinar og Ingibjörg jörðina Fossatún í Borgarfirði og ákváðu að byggja þar upp ferðaþjónustu. Steinar er þekktur úr tónlistarbransanum og ákvað á þessum tíma í sínu lífi að fara út í nýtt ævintýri á landsbyggðinni. Jörðin Fossatún liggur að laxveiðiá og er með veiðihlunnindi í Grímsá og lögum samkvæmt verða allir sem eiga land að slíkum laxveiðiám að vera í veiðifélagi og urðu því Steinar og Ingibjörg að ganga í veiðifélag Grímsár og Tunguár.  Hjónin hófu ferðaþjónustu á jörðinni árið 2005. Eftir að þau fluttu i Fossatún ákvað veiðifélagið að gera gagngerar og kostnaðarsamar breytingar á veiðihúsi sínu til að leigja út til ferðamanna utan veiðitímabilsins á miklu undirverði sem Steinar segir að hafi verið ólöglegt, þar sem það hafi ekki verið hagur Veiðifélagsins og einnig staðið utan við verksvið slíkra félaga.

Fossatún í Borgarfirði
Fossatún í Borgarfirði Ljósmynd/Guðrún Vala

Töpuðu í Héraðsdómi en unnu í Hæstarétti

Hjónunum fannst ansi hart að vera í skikkuð með lögum til þess að vera í félagi sem notaði laxveiðitekjur þeirra til að niðurgreiða samkeppni við þau í ferðaþjónustu. Eftir samskipti við veiðifélagið sem ekki skiluðu árangri og leitun eftir lögfræðiálitum um málið fóru þau í mál við félagið árið 2011 sem þau töpuðu í Héraðsdómi Vesturlands. Dómnum var áfrýjað til Hæstarétts sem dæmdi hins vegar þeim í vil.

Pólitískir klækjaleikir

Steinar segir að stuttu eftir úrskurð Hæstaréttar hafi formaður Landssambands veiðifélaga, Óðinn Sigurþórsson, farið á fund Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og eftir fundinn hafi hann fengið umboð ráðherrans til að vinna að lagabreytingu ásamt starfsfólki ráðuneytisins sem hafi verið keyrð í gegn á Alþingi án fyrirstöðu.

„Ég vil ganga svo langt að kalla þetta pólitíska spillingu að ráða hagsmunaaðila félags, sem tapar máli, til að endurskrifa lög svo það geti haldið áfram að gera eitthvað sem Hæstiréttur hefur dæmt ólöglegt.“

Frá Grímsá í Borgarfirði. Í baksýn sést í Grímsá sveitasetur, …
Frá Grímsá í Borgarfirði. Í baksýn sést í Grímsá sveitasetur, hús Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Hreggnasi

Breytingarnar á lögunum tengdust nýrri skilgreiningu á hlutverki veiðifélaga sem leyfði þeim að geta tekið þátt í almennum hótel- og veitingarekstri til að hámarka arðsemi. Forsendur
lagagerðarinnar eru rangar eins og Hæstiréttur bendir á.

Skyldufélagi í „atvinnurekstarfélagi“

„Ég var endurskoðandi félagsins frá 2003-2009 og sá að þetta var rangt. Það sem gerðist var að það var verið að setja tugir milljóna króna í að gera veiðifélagið að sveitahóteli, langt umfram þarfir veiðimanna og veiðifélagsins. Þá vaknaði spurningin: Það er skylduaðild að veiðifélögum. Grundvöllur skylduaðildarinnar byggist á því að menn eigi ána saman og stundi sjálfbæra fiskirækt, á grundvelli 1. greinar laga um lax- og silungsveiði sem er fiskrækt,  en þarna var komið út í einhvern fjárfestingarekstur  og samkvæmt umsögn formanns Landssambands veiðfélaga, þess sem skrifaði lögin, eru veiðifélög orðin að atvinnurekstrarfélögum sem er allt annars konar félag og getur sem slíkt ekki verið stætt á því að krefjast skylduaðildar.“

„Það var ekkert kannað hvort þessi lagabreyting samræmdist stjórnarskrá, eða réttarstöðu aðildarfélaga, almenna samkeppni eða annað og þótt við leituðum til ráðuneytisins og Alþingis til að ræða þetta bar það engan árangur.“ 

Steinar segir að þó lagabreytingin hafi verið gerð vegna þess að þau höfðu betur í Hæstarétti hafi ekki verið leitað til þeirra vegna umsagnar. Umsagnarbeiðnir hafi verið sendar til mjög fárra við þessa lagabreytingu og bendir á að þegar lög um laxveiði fóru í gegn árið 2006 hafi gríðarlegur fjöldi komið að umsögn um þau lög, sem væri miklu eðlilegri vinnsla. 

Þvingaður í samkeppni við sjálfan sig

Steinar segir að honum hafi hafi virst þetta ekki standast lagalega séð að vera þvingaður í aðild að félagi sem færi síðan í starfssemi á markaðs- og samkeppnismarkaði. Þetta gæti engan veginn staðist lög um samkeppni eða lög um félagafrelsi, þar sem skylduaðildin að veiðifélögum byggðist á mjög þröngri skilgreiningu á sameiginlegum skyldum og réttindum. Því fór hann aftur af stað í málaferli gegn Veiðifélaginu til að fá úr því skorið hvort lagasetningin stæðist. Hann tapar aftur málinu í Héraðsdómi Vesturlands og líka í Landsrétti, en málinu var áfrýjað og Hæstiréttur snéri þeirri niðurstöðu núna á miðvikudaginn og dæmdi Ingibjörgu og Steinari í vil.

Nýtt líf í sjónmáli

Steinar segir að þeim hjónum sé mikið létt eftir niðurstöðu Hæstaréttar á miðvikudaginn og segir að í dómnum komi fram að breytingar á lögum um veiðifélög hafi ekki staðist neina skoðun. „Forsendum samþykktar Alþingis fyrir breytingu laganna er hreinlega slátrað í þessum dómi.“

Hann segir að þessi langa barátta hafi vissulega tekið á þau hafi eytt gríðarlega miklu fé í öll þessi málaferli.

„Maður var oft kominn að því að gefast upp, en ég vildi halda haus í þessu máli. Er prinsippmaður og finnst eins og núna sé að hefjast fyrir okkur hérna í Fossatúni bara nýtt líf, manni er svo létt að vera laus við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka