KFUM og KFUK, sem meðal annars halda úti sumarbúðunum í Vatnaskógi og Vindáshlíð, hlutu hvatningaverðlaun ADHD-samtakanna á málþingi þess í gær, sem bar yfirskriftina „Þú ert númer 1.250 í röðinni“.
Hvatningarverðlaunin, sem veitt voru annað árið í röð, eru veitt „hverjum þeim sem mikilsverðum hætti hefur lagt sitt af mörkum til að bæta lífsgæði fólks með ADHD á Íslandi“, segir í tilkynningu frá samtökunum.
Urðu KFUM og KFUK fyrir valinu vegna verkefnanna „Stelpur í stuði“ og „Gauraflokkur“, sumarbúða fyrir börn með ADHD og skildar raskanir.
„Börn og unglingar með ADHD glíma í mörgum tilvikum við lágt sjálfsmat, skerta félagslega færni og fleira sem til dæmis getur komið í veg fyrir að þau njóti sín í fjölmennu tómstundastarfi eða leik með jafnöldrum,“ sagði Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD-samtakanna í ræðu sinni þegar verðlaunin voru veitt.
Urður Njarðvík, prófessor við sálfræðideild Háskóla Íslands og barnasálfræðingur, hlaut verðlaunin í fyrra þegar þau voru veitt í fyrsta skipti fyrir rannsóknarstörf sín í þágu barna og fullorðinna með ADHD.