„Við líðum ekki svona“

Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og dósent, segir dóma Landsréttar í dag …
Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og dósent, segir dóma Landsréttar í dag ekki koma á óvart. Þungir dómar fyrir skipulögð brot sendi skýr skilaboð út í samfélagið. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Þarna kemur skýrt fram að það hafi verkað til refsiþyngingar að manndrápið hafi verið skipulagt, ofsafengið og framið af einbeittum ásetningi,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, dósent í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, um nýfallna dóma Landsréttar í Rauðagerðismálinu, þrjá 14 ára fangelsisdóma og einn til 20 ára.

Segir Margrét almennu regluna á Íslandi síðustu ár hafa verið 16 ára dóma fyrir manndráp. „Og í þessum málum er oft enginn ásetningur um að drepa endilega, heldur er um að ræða alvarlega líkamsárás sem endar með dauða fórnarlambsins, þetta hafa almennt verið 16 ára mál,“ segir dósentinn.

Angj­el­in Sterkaj, fyrir miðju, hlaut í dag 20 ára dóm …
Angj­el­in Sterkaj, fyrir miðju, hlaut í dag 20 ára dóm í Landsrétti fyrir að ráða Arm­ando Beqirai af dögum við Rauðagerði að kvöldi 13. febrúar í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það brot sem Rauðagerðismálið snýst um sé hins vegar í eðli sínu ólíkt þeim manndrápsmálum sem Íslendingar hafi hve oftast fylgst með fréttum af. „Þarna er líka búið að snúa sýknudómum þessara þriggja samverkamanna sem fá 14 ár í Landsrétti og þá er kominn skiplagður glæpur nokkurra einstaklinga sem er alls staðar til refsiþyngingar,“ heldur Margrét áfram.

Þungir dómar í íslenskri réttarsögu

Í því ljósi segir hún refsiþyngingu Angjeli Sterkaj úr 16 árum í 20 skiljanlega. „Hún er alveg í samræmi við mat dómara í Landsrétti á að brotið hafi verið skipulegt og af ásetningi,“ segir Margrét sem leit yfir eldri dóma í manndrápsmálum á Íslandi eftir að hafa lesið dóminn sem féll í dag.

Rifjar hún þar upp Stóragerðismálið svokallaða árið 1990 þar sem tveir menn höfðu skipulagt rán á bensínstöð sem kostaði starfsmann þar lífið. „Annar þeirra fékk 20 ár og hinn 18 ár, en í þeim dómi var líka verið að dæma fyrir fíkniefnasmygl þannig að 20 árin voru hvort tveggja fyrir manndrápið og fíkniefnasmygl,“ segir Margrét og bendir enn fremur á að Thomas Möller Olsen, skipverji á togaranum Polar Nanoq, hafi hlotið 19 ára dóm árið 2017.

„Í mínum huga snýst þetta um hvort þetta séu afleiðingar …
„Í mínum huga snýst þetta um hvort þetta séu afleiðingar skipulagðrar brotastarfsemi sem við sjáum í þessu manndrápi og fjöldi vísbendinga hnígur í þá átt.“ Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Þar var líka verið að dæma fyrir fíkniefnabrot auk manndráps svo fíkniefnin voru þar til refsiþyngingar. Rauðagerðismálið er hins vegar í eðli sínu ólíkt þessum málum og öðrum manndrápsmálum á Íslandi, þar sem þar er mun meiri skipulagning á bak við brotið sem ætti að vera til refsiþyngingar og þess vegna kom mér það ekki á óvart að dómurinn [yfir Sterkaj] hafi verið þyngdur,“ segir Margrét enn fremur.

Sömu gögn metin á ný

Telur hún tæplega koma á óvart að sýknudómi samverkamannanna þriggja í héraði hafi verið snúið í Landsrétti. „Þarna eru sömu gögn og lögð voru fyrir héraðsdóm metin á ný á æðra dómstigi og þarna þykir framburður þremenninganna ótrúverðugur. Bent er á að framburður þeirra hafi tekið miklum breytingum og eins er bent á að þeim hefði mátt vera það algjörlega ljóst að langlíklegast væri að Angjeli [Sterkaj] ætlaði sér að bana Armando [Beqirai] og þau hefðu tekið þátt í skipulagningunni og undirbúningnum. Þess vegna erum við að sjá þessa þrjá aðila hljóta 14 ára fangelsisdóm,“ segir Margrét.

Hvaða skilaboð telur Margrét, sem er doktor í afbrotafræðum, að svo þungir fangelsisdómar sendi út í íslenskt samfélag?

„Í mínum huga snýst þetta um hvort þetta séu afleiðingar skipulagðrar brotastarfsemi sem við sjáum í þessu manndrápi og fjöldi vísbendinga hnígur í þá átt. Þessi dómur sem féll í dag er að senda þau skilaboð út í samfélagið að við líðum ekki svona – skipulagða brotastarfsemi sem er að enda í manndrápsmálum, og við ætlum að taka því mjög alvarlega,“ svarar Margrét.

Varnaðaráhrifin mest í málum af þessu tagi

Telur hún dómana í dag hafa þau varnaðaráhrif sem refsivörslukerfinu er öðrum þræði ætlað að hafa út í samfélagið?

„Það er erfitt að segja til um það, en ef þungir dómar hafa varnaðaráhrif í einhverjum brotaflokkum, og þegar við horfum á manndráp sérstaklega, þá er það einmitt í manndrápum af þessu tagi, þar sem ásetningur er mjög skýr og einbeittur, sem þungir dómar geta haft varnaðaráhrif,“ segir Margrét.

Fimm dögum eftir manndrápið sátu sjö manns í gæsluvarðhaldi vegna …
Fimm dögum eftir manndrápið sátu sjö manns í gæsluvarðhaldi vegna málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bendir hún í framhaldinu á að þungir dómar í manndrápsmálum þar sem brot eru framin í ölæði eða einhvers konar ofsaköstum hafi engin varnaðaráhrif. „Möguleikinn er einmitt í brotum af þessu tagi [eins og Rauðagerðismálinu] og ég held að það sé hluti af því að við sjáum þessa þyngingu og við sjáum þessum sýknudómum snúið við.“

Hvernig skyldi Margrét þá meta þróun afbrota í íslensku samfélagi hin síðustu ár, frá aldamótum eða svo?

Hún beinir talinu að manndrápum og öðrum alvarlegri afbrotum. „Er einhver skýr uppsveifla þarna, er tíðnina að aukast, er allt að versna?“ spyr hún. „Nei, við sjáum að það er ekki alveg þannig, en það sem við sjáum er að það er meiri skipulagning í brotastarfsemi hérna og það eru að myndast einhverjir hópar. Auðvitað hafa alltaf verið einhverjir glæpahópar á Íslandi en sú þróun er að verða skýrari núna að það er orðið meira skipulag í þessum brotahópum,“ heldur Margrét áfram.

Engin bein lína upp á við

Bendir hún á gögn lögreglu máli sínu til stuðnings, einkum hvað varðar manndráp og alvarlegar líkamsárásir. Þar séu sveiflur upp og niður en engin bein lína upp á við, engan veginn sé hægt að segja að allt sé að fara á versta veg á Íslandi.

„Ef við lítum til dæmis á þetta fíkniefnamál sem nú var verið að fella þunga dóma í [Saltdreifaramálið svokallaða, tveir 10 ára og tveir 12 ára dómar] þá var það umfangsmeira en við höfum séð á Íslandi áður. Og allar upplýsingar sem eru að koma frá lögreglunni, greiningardeild ríkislögreglustjóra, benda til að meira sé um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi nú en áður. Þetta Rauðagerðismál er afleiðing af því,“ segir Margrét.

Margrét telur íslenskt lögreglulið vel í stakk búið til að …
Margrét telur íslenskt lögreglulið vel í stakk búið til að takast á við sín verkefni, fyrir utan að lögregla á Íslandi sé of fáliðuð miðað við fjölgun landsmanna og straum ferðamanna. mbl.is

Telur hún íslenska lögreglu vel í stakk búna til að mæta því breytta umhverfi sem nú er í sjónmáli?

„Ég held að almennt séð sé íslensk lögregla vel í stakk búin til að bregðast við þessari þróun, en auðvitað hefur það verið alveg skýrt í nokkurn tíma að hún er allt of fáliðuð á öllum vígstöðvum. Lögreglumenn á Íslandi eru of fámennir miðað við fjölgun íbúa landsins og líka fjölgun ferðamanna, þótt lögregla sé vel búin tæknilega og vel þjálfuð, þetta hefur verið rætt oft,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og dósent í lögreglufræðum, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert