Undanfarin rúm þrjú ár hefur fólk getað farið í gufubað í sérstaklega útbúnu hjólhýsi á völdum stöðum við sjávarsíðuna, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu en einnig úti á landsbyggðinni. Fyrir um mánuði var nýtt og stærra hjólhýsi tekið í notkun og hefur verið boðið upp á svokallaða gufugusu í því í Gufunesi að undanförnu. „Þetta hefur gengið prýðilega og nýja vagninum hefur verið vel tekið,“ segir Hafdís Hrund Solveigar Gísla, sem á og rekur fyrirtækið Rjúkandi fargufu.
Hafdís kynnti sér baðmenningu í Kaupmannahöfn og féll fyrir þessari gufubaðsmenningu. Hún hafði áður unnið hjá ÍTR á Ylströndinni í Nauthólsvík og vildi tengjast sjónum með einhverjum hætti, enda stundað sjóböð reglulega um árabil. Hún byrjaði ein en nú hafa Olga Hörn Fenger og Vala Baldursdóttir bæst í gusuhópinn svokallaða.
Vagninn hefur einkum verið í Gufunesi, við Skarfaklett, hjá grásleppuskúrunum neðan við Ægisíðu, úti við Gróttu, á Álftanesi, við Kópavogshöfn og við Hafravatn. Hafdís hefur líka boðið upp á fargufu við Laugarvatn, á Snæfellsnesi, Dalvík og víðar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 28. október.