„Rétt er að geta þess að einu tengslin við skipulagða brotastarfsemi sem upplýst hefur verið um í málinu eru þau að lögreglan gaf það út á blaðamannafundi um málið í mars 2021 að hún teldi brotaþola hafa verið tengdan skipulagðri brotastarfsemi.“
Þetta segir Oddgeir Einarsson hæstaréttarlögmaður í samtali við mbl.is, verjandi Angjelin Sterkaj, sem í gær hlaut 20 ára dóm í Landsrétti í Rauðagerðismálinu svokallaða. Bregst Oddgeir þar við orðum Margrétar Valdimarsdóttur, afbrotafræðings og dósents í lögreglufræðum, sem ræddi við mbl.is um dómana í gær.
Vísar Oddgeir til eftirfarandi ummæla Margrétar:
„Í mínum huga snýst þetta um hvort þetta séu afleiðingar skipulagðrar brotastarfsemi sem við sjáum í þessu manndrápi og fjöldi vísbendinga hnígur í þá átt. Þessi dómur sem féll í dag er að senda þau skilaboð út í samfélagið að við líðum ekki svona – skipulagða brotastarfsemi sem er að enda í manndrápsmálum, og við ætlum að taka því mjög alvarlega.“
Segir hæstaréttarlögmaðurinn hugleiðingar um skipulagða brotastarfsemi ekki eiga við um sakborninga Rauðagerðismálsins. „Í málinu hefur ekkert verið upplýst um að nokkur sakborninganna sé viðriðinn skipulagða brotastarfsemi. Það að sakborningar séu af erlendu bergi brotnir jafngildir vitanlega ekki því að þeir séu í skipulagðri glæpastarfsemi,“ segir Oddgeir.
Bendir hann jafnframt á að í dómi Landsréttar komi það fram að brotaþoli og félagar hans hafi haft í hótunum við Sterkaj. „Í gögnum málsins sést að þar er um að ræða líflátshótanir sem ekki beindust aðeins gegn Angjelin heldur einnig fjölskyldu hans,“ heldur hann áfram.
„Það getur ekki verið réttlæting fyrir þyngri refsingum sakborninga ef verknaður er afleiðing hótana manna með tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Ummæli Margrétar um að með dómnum sé verið að senda skilaboð út í samfélagið um að við líðum ekki skipulagða brotastarfsemi eru röng enda er hlutverk dómstóla í sakamálum ekki að senda nein skilaboð heldur dæma samkvæmt lögum,“ segir verjandinn.
Í þessu felist að meta hvort sök sé hafin yfir skynsamlegan vafa og mæla eftir atvikum fyrir um hæfilega refsingu í samræmi við lög og dómafordæmi.
„Hins vegar setur Alþingi lög sem dæma á eftir og ef til vill er hægt að líta svo á að breytt löggjöf sendi skilaboð út í samfélagið,“ segir Oddgeir Einarsson að lokum.