Lengri tíma tekur að komast um á höfuðborgarsvæðinu með Strætó heldur en einkabílnum samkvæmt mælingum sem gerðar hafa verið.
Daði Baldur Ottósson, samgönguverkfræðingur hjá EFLU, greindi frá þessu í erindi á Rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar í gær. Niðurstöðurnar komi ekki á óvart að hans sögn en segist vilja sjá minni tímamismun svo fleiri líti á Strætó sem raunhæfan valkost. Með auknum sérakreinum fyrir Strætó geti strætisvagnarnir verið fljotari en einkabillinn og þá serstaklega á annatíma.
Samanburður á ferðatíma Strætó og einkabílsins innan höfuðborgarsvæðisins var gerður með það fyrir augum að kanna samkeppnishæfni almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu gagnvart einkabílnum.
Misjafnt er hversu mikill tími sparast með því að nota einkabíl en eðli málsins samkvæmt spilar þar ýmislegt inn í eins og vegalengdir, á hvaða tímum er farið, hversu auðvelt er að skipta um vagn í leiðakerfi Strætó og fleira.
„Á heildina litið voru niðurstöðurnar eins og búast mátti við. Ég hafði kynnt mér þetta ágætlega og tek reglulega Strætó. Þar af leiðandi hafði ég einhverja hugmynd um hvar erfitt getur verið að komast á milli staða. Mér fannst til dæmis fróðlegt að skoða leiðina frá Hafnarfirði og niður í bæ í Reykjavík. Þar er leið sem er tiltölulega einfalt að taka með Strætó en ef þú ætlar í önnur hverfi í Reykjavík þá er ferðalagið frá Hafnarfirði talsvert tímafrekara. Þetta fer því eftir því hvert þú þarft að fara en stundum getur tekið helmingi lengri tíma að ferðast með Strætó þótt vegalengdirnar séu ekki langar,“ sagði Daði í samtali við mbl.is og tekur dæmi.
„Ef maður fer frá Ártúni og að Háskóla Íslands árdegis þá tók það í kringum korter eða svo með bæði Strætó og einkabíl, þar geta líka farþegar treyst á sérrými Strætó sem tryggir jafnan ferðatímann á annatíma. En svo má taka dæmi um lengri leið eins og frá Hafnarfirði og út á Granda þá tekur það nærri klukkutíma með Strætó en hálftíma með einkabíl. Þar af leiðandi, getur maður reyndar gefið sér að fáir ferðist þá leið með Strætó.“
Daði bendir á að á vissum leiðum geti Strætó talist samkeppnishæfur við aðra ferðamáta „Mér finnst áhugavert að á sumum leiðum er Strætó mjög samkeppnishæfur gagnvart einkabílnum. En þegar kemur að tilteknum tengingum þá sér maður mjög mikinn mun á ferðatíma Strætó og einkabílsins. Við þekkjum að þegar við erum að ferðast þá getur verið erfitt að skipta úr einum vagni í annan þannig að það teljist raunhæfur valkostur.“
Daði segir að niðurstöðurnar sem hann kynnti á ráðstefnunni í dag megi kalla frumniðurstöður. Von sé á skýrslu um rannsóknina og hann vonast eftir því að hún líti dagsins ljós fyrir jól. Fyrir þremur árum kynnti EFLA niðurstöður úr rannsóknarverkefni á sömu ráðstefnu og segja má að rannsóknin nú sé rökrétt framhald af þeirri fyrri.
„Þá vorum við að skoða hvaða þættir það eru sem skipta virkilega máli varðandi notkun á almenningssamgöngum. Þar sáum við að notendur töluðu mest um að styttri ferðatími og bætt tíðni væri líklegast til að þeir myndu oftar nota Strætó. Þá fór maður að velta betur fyrir sér hvernig væri hægt að mæla betur ferðatímann. Mælingar á ferðatíma Strætó innan Reykjavíkur lágu fyrir en ýmsir umferðahnútar eru einnig í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og því var mikilvægt að mæla ferðatímann í stærra samhengi og skoða muninn á milli Strætó og einkabílsins. Í fyrri rannsókninni kom einnig fram að margir notendur sætta sig við lengri ferðatíma með Strætó en munurinn mætti ekki vera mikið meiri en 10 mínútur.
Rannsókn sem þessi er tól til að meta betur hver staðan er í dag. Þegar nýtt leiðarnet kemur einn daginn, eða þegar Borgarlínan kemur, þá verður hægt að sjá betur hvort það skili ávinningi eða ekki,“ sagði Daði enn fremur.