Híjab þarf ekki að vera merki um kúgun

Frá erindinu á Jafnréttisþinginu sem fór fram í Hörpu.
Frá erindinu á Jafnréttisþinginu sem fór fram í Hörpu. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Mikilvægara er að aðstoða múslímskar konur við að styrkja stöðu sína á íslenskum vinnumarkaði frekar en að leggja áherslu á að „leyfa þeim“ að taka af sér höfuðslæður, ef markmiðið er að valdefla þær.

Konurnar sem hingað koma, annað hvort sem flóttamenn eða innflytjendur, eru margar hverjar fastar í láglaunastörfum og hrökklast síðan af vinnumarkaði vegna skilningsleysis á menningu þeirra og trú. Það veldur því að þær einangrast enn frekar. Til þess að þær öðlist meira frelsi þarf m.a. að uppræta fordóma og stórbæta íslenskukennslu. 

Þetta segir Fayrouz Nouh, doktorsnemi í hnattrænum fræðum. Hún hélt erindið Mannauður, menningarauður, félagslegur auður og mismunun: Múslimskar innflytjendakonur á íslenskum vinnumarkaði á Jafnréttisþinginu sem fór fram í Hörpu fyrr í vikunni. 

Þar kynnti hún niðurstöður rannsóknar sinnar sem byggðist á viðtölum við aðfluttar múslímskar konur sem búa annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni.

Erfitt að fá menntun viðurkennda

Rannsókn Fayrouz leiddi í ljós að múslímskar konur glíma við margs konar hindranir þegar kemur að atvinnumarkaðinum. Þrátt fyrir hátt menntunarstig eru margar fastar í láglaunastörfum þar sem skortur á tengslaneti og tungumálakunnáttu kemur í veg fyrir að þær fái tækifæri til að leita annað.

Engin af þeim konum sem Fayrouz talaði við var að vinna við það sem þær lærðu. Þá hafa þær einnig átt í erfiðleikum með að fá svör við því hvernig þær geti fengið menntun sína viðurkennda hér á landi. 

Konurnar voru oft einmana á vinnustaðnum og upplifðu gjarnan fjarlægð milli sín og samstarfsfélaga vegna menningarlegs og trúarlegs bakgrunns þeirra. Fyrir vikið reyndu margar að forðast það að fara í kaffihlé með samstarfsfélögum sínum þar sem þeim fannst það óþægilegt. 

„Við erum að reyna að verða hluti af samfélaginu en stundum er það erfitt. Stundum líður manni eins og íslenska samfélagið sé opið öllum en það er ekki alltaf þannig. Kannski er það vegna þess að þið skiljið okkur ekki, skiljið ekki menningu okkar,“ segir Fayrouz í samtali við mbl.is.

Neikvætt viðhorf vegna íslam

Fayrouz segir konurnar gjarnan upplifa neikvætt viðhorf í sinn garð vegna trúar sinnar. Þær vilji útskýra fyrir samstarfsfólki sínu að þær séu ekki kúgaðar þrátt fyrir að þær beri höfuðslæðu eða fasti á Ramadan. Það geti aftur á móti verið erfitt vegna takmarkaðrar þekkingar í íslensku.

„Höfuðslæðurnar eru oft hluti af sjálfsmynd kvennanna. Mögulega er ég fallegri án höfuðslæðunnar en það gefur fólki ekki rétt á því að segja mér að ég sé frjálsari án hennar. Af hverju fer umræðan alltaf að snúast um híjabinn? Þessi neikvæða ímynd er alltaf viðloðandi múslímsku konurnar.“

Þarf að bæta tungumálakennslu

Fayrouz segir stöðuna ekki hafa batnað eftir að dregið var úr aðstoð á síðasta ári sem átti að hjálpa flóttafólki og innflytjendum að aðlagast íslensku samfélagi.

„Fólk sem kom til landsins á síðasta ári skortir jafnvel enn þá grunnþekkingu í íslensku. Þegar ég kom hingað var staðan allt önnur. Ég fékk mun meiri hjálp, ég fékk meiri stuðning. Það er verið að draga úr þessari aðstoð núna.“

Hún segir mikilvægt að stórbæta íslenskukennslu m.a. með því að gera kennsluaðferðirnar faglegri. 

„Flóttafólk og innflytjendur ættu að fá stöðuga tungumálakennslu. Það er ekki hægt að kenna tvisvar í viku, tvær klukkustundir í senn og taka síðan sumarfrí. Í öðrum Evrópulöndum er litið á tungumálanám sem starf. Þú ferð í skóla milli klukkan átta og tólf og þú færð borgað á meðan. Þannig er fólk hvatt til að læra tungumálið en þetta er ekki svona á Íslandi,“ segir Fayrouz.

„Ég þekki fólk hérna frá Póllandi og Arabíuskaganum sem læra meiri ensku hérna en íslensku. Þau mæta til vinnu, tala þar ensku og fara síðan heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert