Efling stefnir að því að afhenda Samtökum atvinnulífsins (SA) kröfugerð sína á mánudaginn kemur. Í kjölfarið verða birtar kröfugerðir á hendur ríkinu og vegna lífeyrissjóðakerfisins, að því er fram kom á heimasíðu Eflingar í gær.
Þar segir m.a. að fjölmenn samninganefnd Eflingar, skipuð félagsfólki úr mörgum geirum vinnumarkaðarins, vinni hörðum höndum að smíði kröfugerðar til SA.
Kjarni um 40 virkra félagsmanna og trúnaðarmanna ber uppi starf samninganefndar Eflingar. Unnið hefur verið í hópum og skipulega leitast eftir að kalla fram skoðanir og raddir nefndarmanna. Fundirnir hafa verið textatúlkaðir milli ensku og íslensku á skjá, og glærukynningar þýddar, líkt og á öllum félagsfundum Eflingar. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og formaður samninganefndar, hefur stýrt fundunum.