Kveður MAST fara með lygar

Steinunni, og fólki sem hún hefur átt orðastað við, rennur …
Steinunni, og fólki sem hún hefur átt orðastað við, rennur ástand raðmagurra skepnanna til rifja, ekki síður en hrossa er hér voru til umfjöllunar síðustu vikur. Brúni gripurinn, nær á myndinni, er að sögn Steinunnar illa slasaður og horaður. Ljósmynd/Steinunn Árnadóttir

„Þetta er miklu eldra mál og búið að vera í ferli innan gæsalappa hjá eftirlitsaðilum í einhver ár,“ segir Steinunn Árnadóttir, hestakona og íbúi í Borgarnesi, í samtali við mbl.is um nautgripi á bæ nokkrum í Borgarfirði en eigendur þeirra eru hinir sömu og héldu hross, raðmögur og vannærð, sem mbl.is fjallaði um nýverið.

Birtir Steinunn mynd af nautgripum á Facebook-síðu sinni og hefur dregið þar hring til að vekja athygli á því hve horuð önnur skepnan á myndinni er. Einnig kveður hún sauðfé á bænum hafa verið augljóslega illa haldið af vanhirðu. Á Facebook ritar hún:

„Og sagan endurtekur sig …Nú er verið að reyna að segja að búið sé að koma kindum fyrir! Rétt er: þær voru horfnar þegar sláturbíll kom og átti að ná í þær. „Matvælastofnun hefur gripið til aðgerða með nautgripi…“ Rétt er: eigandinn fór með vatn til þeirra í gær. Annars eru þeir grindhoraðir og slasaðir á sama stað.

Sennilega er ástandið ekki nógu slæmt. Þægilegt að gera vesalingana alveg máttlausa af hungri og vosbúð, þá er gott að reka þessi grey á sláturbíl. Til hamingju Mast.“

Hefur enga þýðingu

Steinunn heldur samtali sínu við mbl.is áfram. „Það er slæmt að opinber stofnun, sem Matvælastofnun er, fari opinberlega með lygar til að reyna að klóra yfir vanrækslu sína. Ég hef ekki samband lengur við Matvælastofnun, það hefur enga þýðingu, ég er margbúin að senda þeim póst og tilkynningar, ég hef aldrei fengið svör og aldrei fengið viðbrögð svo ég sé bara ekki að ástæða sé til að eyða tíma í það,“ segir hún.

Í frétt Ríkisútvarpsins í morgun er greint frá því að Matvælastofnun hafi gripið til aðgerða vegna nautgripanna og segi stofnunin téð sauðfé ekki lengur í vörslu bóndans.

Vandamálið nú séu ekki eigendur skepnanna, segir Steinunn, þeim þurfi einfaldlega að hjálpa, vandamálið sé Matvælastofnun sem grípi ekki inn í og endi þjáningu skepnanna. „Þessir gripir eru orðnir verðlausir þeir eru svo horaðir,“ segir Steinunn og kveðst skynja hvort tveggja reiði og depurð hjá fólki sem hún hefur rætt við.

Væntir hún úrbóta í náinni framtíð?

„Miðað við fyrri reynslu eru skepnurnar gerðar nógu horaðar og vesælar og þá eru þær reknar á sláturbílinn. Kannski verður starfsháttum einhvern tímann breytt en miðað við þessa framvindu er ekkert annað sem blasir við,“ segir Steinunn Árnadóttir í Borgarnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert