Landshringur slitinn á Suðausturlandi

Landshringurinn fór í sundur vegna framkvæmda á Suðausturlandi og er …
Landshringurinn fór í sundur vegna framkvæmda á Suðausturlandi og er unnið að viðgerð sem tekur nokkrar klukkustundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landshringur Mílu á Suðausturlandi slitnaði fyrr í dag, milli Holts á Mýrum og Hafnar í Hornafirði, þegar gröfuskófla fór í hann. Að sögn Sigurrósar Jónsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra fyrirtækisins, eru tæknimenn þegar komnir á staðinn og búnir að staðsetja slitið.

„Þetta hefur alltaf afleiðingar svo sem, en það er þannig þegar landshringurinn fer í sundur þá fer umferðin hina leiðina. Komist hún ekki lengur suður fyrir fer hún norður fyrir til að komast á áfangastað,“ útskýrir Sigurrós. Þar með hægist á umferðinni þótt samband notenda rofni ekki.

„Það eru svo sem ekki margir notendur á þessu svæði sem þetta hefur áhrif á. Nú eru tæknimenn komnir á staðinn og verið að moka frá slitinu svo þeir komist að. Svo þurfa þeir að setja alla strengina inni í landshringnum saman, þetta eru svona þrír-fjórir tímar í allt kannski, með þeim tíma sem tekur að moka frá strengnum,“ segir Sigurrós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert