Óskaplegt kvenhatur sem birtist

​Vilborg Auður Ísleifsdóttir Bickel, til hægri, tekur við orðunni úr …
​Vilborg Auður Ísleifsdóttir Bickel, til hægri, tekur við orðunni úr hendi Luciu Puttrich. Ralf Riehl Hochzeitsfotograf

„Það var óskaplegt kvenhatur sem birtist í þessu stríði. Eitthvað varð að gera," segir Vilborg Auður Ísleifsdóttir Bickel sem tók á dögunum við heiðursorðu þýska sambandslýðveldisins vegna stuðnings síns við þær konur, sem sættu illri meðferð í Bosníustríðinu.

Fréttir af fjöldanauðgunum í stríðinu höfðu mikil áhrif á Vilborgu og hún vildi ekki sitja aðgerðalaus hjá. Hún slóst því í hóp „Kvenna í svörtu“, samtaka sem komu saman á Mauritus-torgi í Wiesbaden á hverjum laugardegi á tíunda áratugnum til að minna á stríðin á Balkanskaganum. Þetta var gert að argentínskri fyrirmynd, þar sem mæður og eiginkonur fórnarlamba herforingjastjórnarinnar kröfðust þess að fá að vita um örlög sinna nánustu. „Tilgangurinn var að vekja athygli á því að verið væri að misþyrma fólki: konum væri nauðgað, börn skorin á háls og þar fram eftir götunum. Við þetta ástand var ekki hægt að una,“ segir Vilborg.

Stofnaði félagið BISER

Til að geta lagt meira af mörkum var félagið BISER (Tárið) stofnað. Þar voru fremstar í flokki Vilborg og læknirinn Helga Brenneis. Þær vildu hjálpa bosnískum fórnarlömbum á þeirra heimaslóðum og styðja með skólahaldi; að kenna konum eitthvað, sem nýttist þeim heima fyrir og úti á vinnumarkaðnum, t.d. saumaskap, og tölvufærni og veita þeim læknisaðstoð,  sálfræðilega og lagalega að­stoð og opna þannig fyrir þeim tækifæri í framtíðinni. Vilborg beitti sér fyrir opnun þriggja kvennamiðstöðva í borgunum Sarajevo, Travnik og Tuzla, en í löndum fyrrum Júgóslavíu þekktist fullorðinsfræðsla ekki.

„Þetta var hátíðarstund,“ segir Vilborg um afhendingu orðunnar á dögunum. Skjalið er undirritað af forsetanum sjálfum, Frank-Walter Steinmeier, en hún tók við orðunni úr hendi Luciu Puttrich, sem er ráðherra Evrópumála í sambandslandinu Hessen.

„Þú hefur helgað líf þitt stuðningi við þær konur, sem sættu illri meðferð í Bosníustríðinu. Það stríð var háð í miðri Evrópu og minnir okkur enn í dag á það að hin friðsama bylting í gamla Austur-Þýskalandi var sérstakur viðburður og umbrot þessa tíma fóru ekki alltaf fram með friðsamlegum hætti,“ sagði ráðherrann við veitingu orðunnar. „Þú getur verið verulega stolt af lífsverki þínu og með þessu viljum við ekki bara þakka þér fyrir að láta til þín taka í samfélaginu, heldur einnig sýna að einstaklingar geta gert mikið fyrir samfélagið.“

Nánar er rætt við Vilborgu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert