Í Saknaðarilmi dregur Elísabet upp myndir af móður sinni. Bókin er um samband mæðgnanna og er eins konar uppgjör Elísabetar; en sambandið var afar flókið, tilfinningaþrungið, stormasamt, stundum gott og á köflum mjög slæmt.
En hvers vegna að gera upp sambandið opinberlega í bók?
„Vegna þess að ég er búin að vera að raða hlutum í heilt ár; húsgögnum, myndum og bókum. Ég gat ekki hætt að raða og var farin að raða á nóttunni. Eitt kvöldið settist ég niður og spurði sjálfa mig af hverju ég væri að raða. Þá gaus upp veinandi grátur. Ég hef ekki verið flink í að gráta en þarna setti ég bara púða fyrir andlitið af því á neðri hæð bjuggu pólskir verkamenn og ég vildi ekki að þeir heyrðu í mér. Ég veinaði og grét og það var svo merkilegt að ég fann allt í einu að ég saknaði svo píkulyktarinnar af mömmu. Ég hugsaði: hvað er í gangi? Mér fannst þetta svo frumstætt og fallegt, eitthvað dýrslegt. Mér leið eins og ég væri lítill ljónshvolpur sem þekkti mömmu sína af lyktinni,“ segir hún.
„Það var eins og öllu væri snúið á hvolf og ég fór að skrifa niður þessar minningar. Það var ekkert annað í stöðunni og þá rak hver minningin aðra. Áður en ég vissi af voru komnar tíu blaðsíður og þá sá ég að ég gæti skrifað um þetta bók; um samband mitt og mömmu. Og ekki hafa bara góðu minningarnar, heldur líka þær slæmu, því ég vildi rannsaka þetta samband. Ég kemst svo að mjög ákveðinni niðurstöðu sem kom mér mjög á óvart, en ég vil ekki ljóstra því upp hér. Bókin er bæði uppgjör og saga um mæðgur sem bæði náðu saman og náðu aldrei saman. Mér fannst ég þurfa að fyrirgefa móður minni svo margt og það tókst með þessari sögu.“
Ítarlegt viðtal er við Elísabetu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.