„Það styttist í að við munum þurfa á öllu okkar öfluga fólki að halda. Því að það styttist í kosningar.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, undir lok stefnuræðu sinnar á flokksráðsfundi sem haldinn var á Egilsstöðum í dag.
„Það er styttra í þær en menn kannski halda,“ sagði hann enn frekar og gaf þar með í skyn að hann telji að núverandi ríkistjórn muni springa.
„Þá mætum við til leiks með bestu lausnirnar og besta liðið til að ná fram nauðsynlegum breytingum og nýta tækifæri Íslands. Það líður senn að örlagastund í íslenskum stjórnmálum – og Miðflokkurinn verður tilbúinn.“
Sigmundur Davíð fór um víðan völl í ræðu sinni sem slagaði hátt í klukkustund. Hann gerði málefni hælisleitenda að umræðuefni ásamt þriðja orkupakkanum og olíuvinnslu á Norðurslóðum.
Á fundinum var kjörið í þrjú embætti á vegum flokksins. Samkvæmt tilkynningu frá Miðflokknum voru níu í kjöri.
Ómar Már Jónsson, Reykjavík, var kjörinn formaður innra starfs nefndar,
Þorgrímur Sigmundsson, norðausturkjördæmi, kjörinn formaður málefnanefndar, og
Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir, norðausturkjördæmi, kjörin formaður upplýsinganefndar.