Tilkynnir um ákvörðun á morgun

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- og orku- og loftslagsráðherra, mun tilkynna um ákvörðun sína hvort að hann hyggist bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins á morgun. 

Þetta herma öruggar heimildir mbl.is.

Guðlaugur Þór hefur legið undir feldi um nokkurt skeið og hafa nokkrir fundir með stuðningsmönnum hans verið haldnir að undanförnu. Þá hafa fjölmargar ábendingar borist mbl.is um símtöl þar sem Guðlaugur Þór kannaði jarðveginn fyrir mögulegu formannsframboði. 

Guðlaugur Þór sagði í samtali við mbl.is á fimmtudaginn að ákvörðun um framboð til formennsku væri stór og snerti fleiri en hann sjálfan. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins til þrettán ára, sagði í viðtali í Dagmálum að engin gæti gengið að slíku embætti vissu en hann hafi fullan hug á að sækja endurnýjað umboð til landsfundar. 

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram um næstu helgi, 4. til 6. nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert