Verður eins og Svarti-Pétur

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hvetur stjórnendur fyrirtækja til að stilla …
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hvetur stjórnendur fyrirtækja til að stilla verðhækkunum í hóf, aðalfundur samtakanna ályktar að ólíðandi sé að kaupmenn skýli sér bak við stríðsátök og hækki verð til neytenda umfram það sem er bráðnauðsynlegt. Ljósmynd/Neytendasamtökin

„Lilja Alfreðsdóttir [menningar- og viðskiptaráðherra] ávarpaði fundinn, hún var reyndar ekki viðstödd, en talaði gegnum fjarfundabúnað og sagði neytendamál afar mikilvæg. Sagðist einmitt vera að fara að undirrita viljayfirlýsingu ráðuneytisins og Neytendasamtakanna um samstarf og aðgerðir á sviði neytendamála á mánudaginn,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is og segir þar af aðalfundi samtakanna sem haldinn var í morgun.

Samþykkti fundurinn ályktun og hvatti þar stjórnvöld og atvinnulíf til að hafa hagsmuni og sjónarmið neytenda í fyrirrúmi í baráttunni við aukna verðbólgu og forðast allar aðgerðir sem hækka vísitölu neysluverðs.

Verðum að finna aðrar leiðir

„Þetta er tiltölulega löng ályktun miðað við aðrar ályktanir samtakanna en nú hvíla mörg mál á neytendum og félagsmönnum neytendasamtakanna,“ segir Breki. „Samtökin hvetja stjórnvöld og atvinnulífið til að hafa sjónarmið neytenda ávallt í fyrirrúmi í baráttunni gegn þessum vágesti sem er farinn að heimsækja okkur, sem er verðbólgan,“ heldur hann áfram.

Forsvarsmenn fyrirtækja séu í ályktuninni hvattir til að sýna samfélagslega ábyrgð og taka þátt í því að berjast gegn verðbólgu, „við erum jú öll neytendur,“ bendir formaðurinn á.

Í ályktuninni kemur fram að með öllu ólíðandi sé að fyrirtæki skýli sér á bak við innrás Rússa í Úkraínu til að viðhalda háu vöruverði. Eru brögð að þessu, telur Breki?

„Við höfum engin bein dæmi um það en við vitum að gegnum tíðina hefur það gerst að menn hafi freistast til að hækka verð á vörum sem hafa ekkert með ríkjandi ástand að gera. Svo verður til víxlverkun verðhækkana sem verður dálítið eins og Svarti-Pétur, það vill enginn sitja uppi síðastur, þannig að við verðum að finna aðrar leiðir en verðhækkanir og við verðum að draga úr álögum á neytendur,“ segir Breki.

Bendir hann á að í því ástandi sem nú ríkir séu fyrirtæki að leggja fram afkomuviðvaranir. „Þau eru að græða meira í þessu árferði og meira en þau vonuðust til og þá er eitthvað að. Þá hlýtur að vera hægt að lækka verð eða draga úr kostnaði eða gera eitthvað annað til að skila þessum hækkunum til baka,“ segir Breki að lokum.

Hér að neðan má lesa ályktun aðalfundarins í heild sinni:

Aðalfundur Neytendasamtakanna hvetur stjórnvöld og atvinnulíf til að hafa hagsmuni og sjónarmið neytenda í fyrirrúmi í baráttunni við aukna verðbólgu og forðast allar aðgerðir sem hækka vísitölu neysluverðs. Neytendasamtökin krefjast þess að neytendur njóti góðs af kostnaðarlækkunum og hagræðingu í rekstri fyrirtækja.

Forsvarsmenn fyrirtækja verða að sýna samfélagslega ábyrgð og tryggja neytendum sanngjarnt verð í stað þess að notfæra sér aðstæður, hækka álagningu og hagnast, á meðan almenningur ber skarðan hlut frá borði!

Stórfyrirtæki sem selja vörur og þjónustu sem teljast til nauðsynja bera mikla ábyrgð og hafa með álagningu sinni mjög mikil áhrif á neytendur og lífskjör. Það er með öllu ólíðandi að fyrirtæki skýli sér á bak við innrás Rússa í Úkraínu og kórónuveirufaraldurinn til að viðhalda háu vöruverði. Í þessu samhengi ber sérstaklega að minnast á olíufélög sem og matvörukeðjur.

Aðalfundur Neytendasamtakanna minnir á að við erum öll neytendur og barátta fyrir bættum rétti neytenda er barátta fyrir bættum lífskjörum okkar allra.

Til að bæta stöðu neytenda telur aðalfundur Neytendasamtakanna eftirfarandi sérlega brýnt:

-Virk samkeppni hefur jákvæð áhrif á verð, gæði og nýsköpun og tilraunir til að koma í veg fyrir virka samkeppni eru aðför að neytendum. Ráðast þarf í víðtækar aðgerðir sem ýta undir og efla samkeppni og auðvelda þarf neytendum að sækja skaðabætur vegna samkeppnislagabrota með innleiðingu Evrópusambandstilskipunar 104/2014.

-Setja þarf hámark á innheimtukostnað og færa eftirlit með allri innheimtustarfsemi til Fjármálaeftirlits Seðlabankans. En dæmi er um nærri fjórföldun upphæðar á sex vikum við innheimtu á tiltölulega lágri kröfu. Það jafngildir rúmlega 2.400% vöxtum á ársgrundvelli.

-Endurskoða þarf lög um meðferð einkamála og skýra betur heimildir fyrir almannaheillasamtök að efna til hópmálsókna, en dómaframkvæmd hefur verið neytendum þung og Neytendasamtökunum verið gert erfitt fyrir að fara í dómsmál fyrir hönd margra skjólstæðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert