Vilja kljúfa sig frá Eflingu

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Aðalsteinn segir óánægju með stjórn …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Aðalsteinn segir óánægju með stjórn verkalýðsfélagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafnarverkamenn funda nú í húsi Þjóðminjasafnsins þar sem rætt er um þann möguleika að stéttin segi sig úr Eflingu, stofni nýtt félag og gangi í Alþjóðasamband flutningaverkamanna (ITF) þegar kjarasamningar losna þann 1. nóvember.

Aðalsteinn Björnsson, fyrrum trúnaðarmaður Eflingar, segir stofnun nýs félags hafa verið í undirbúningi í nokkrar vikur. Mikil óánægja sé með stjórn Eflingar sem hann telur að hafi brotið lög með skipun fulltrúa á ASÍ-þingið. Þá hafi auk þess verið miklir samskiptaörðugleikar við ákveðna einstaklinga í stjórninni.

Kynningarfundur

„Þetta er kynningarfundur. Við erum að sjá hvernig stemningin er fyrir því að mynda saman félag,“ segir Aðalsteinn sem telur líklegt að þeir sem sæki fundinn hafi áhuga á slíku. Hann segir þó nauðsynlegt að greiða úr ýmsum lagaflækjum áður en það verði hægt.

Þá segir hann engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi hverjir muni leiða nýja félagið sem hefur ekki enn fengið nafn.

„Þetta er bara að byrja.“

Stefnan sé nú sett á að finna nýja fulltrúa sem geti leitt þá sem vinna við hafnarvinnu eða tengdri starfsemi fyrir komandi kjaraviðræður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert