Umferðaróhöpp og slys virðast vera hlutfallslega alvarlegri á Hringbraut og Breiðholtsbraut en rannsókn á vegum VSÓ ráðgjafar bendir til þess.
Davíð Guðbergsson, samgönguverkfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf, flutti erindi á föstudag á Rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar á Hótel Nordica sem bar yfirskriftina: „Vinstribeygjur - Slysagreining á mismunandi útfærslum varinna vinstribeygjufasa á ljósastýrðum gatnamótum höfuðborgarsvæðisins.“
Davíð segir að tuttugu gatnamót hafi verið skoðuð. „Af þeim gatnamótum sem við skoðuðum voru alvarlegustu slysin á Hringbraut/Hofsvallagötu og Hringbraut/Nauthólsvegi. Einnig fékkst hár alvarleikastuðull á tvennum gatnamótum á Breiðholtsbraut en áberandi mesti alvarleiki slysa var við þessi fern gatnamót,“ segir Davíð en leggur áherslu á að fara skuli varlega í alhæfingar út frá þessari rannsókn.
„Umferðaþungi er mismikill á þessum gatnamótum og þau eru misstór. Hvað varðar alvarleikastuðulinn gætu niðurstöðurnar verið að einhverju leyti bjagaðar því færri atvik eru á bak við í sumum þessara gatnamóta. Einnig má geta þess að alvarlegri slys eru auðvitað líklegri til að vera skráð. En að tvenn gatnamót á Hringbraut komi verst út er sterk vísbending. Spurningin er hvað veldur og það mætti skoða nánar,“ sagði Davíð þegar mbl.is tók hann tali.
Davíð segir viðfangsefni eins og vinstri beygjur á gatnamótum hafa áður verið skoðuð en minna hafi verið gert af því að skoða ljósastýringar í umferðinni hérlendis.
„Gera mætti fleiri rannsóknir varðandi ljósastýringar hér á landi. Taka fleiri gatnamót fyrir en áður hefur verið gert hérlendis og reyna að fá marktækari tölfræðilegar niðurstöður. Kollegi minn átti hugmyndina að þessu. Hann fór að velta þessu fyrir sér þegar hann sat einhvers staðar á umferðaljósum.“
Gatnamótin sem skoðuð voru eru ýmist varin eða hálfvarin hvað varðar vinstri beygjur.
„Fyrst spurðum við okkur að því hvort munur sé á hvernig bílum er beint í gegnum gatnamótin. Fremur fá gatnamót á landinu eru með vinstri beygjur á móti hvorri annarri samtímis. Við sáum mynstur þegar við spáðum í því hvort aðalgatan og hliðargatan væru með varðar vinstri beygjur eða engar. Þar gátum við séð mun.
Áhugaverðast í þessu er að tíðni óhappa eða slysa er hærri á fullvörðum gatnamótum, þ.e.a.s þar sem vinstri beygja er varin í báðar áttir. En þegar gatnamótin eru hálfvarin eru hlutfallslega færri óhöpp en slysin verða alvarlegri þegar þau verða. Þar sem vinstri beygjur eru varðar á fjölförnum gatnamótum eru aftanákeyrslur algengari en slys á fólki einungis um 6%. Á hálfvörðum gatnamótum verða slys algengari í og við gatnamótin og þá verða slys á fólki líklegri eða um 25%.
Í lok dags leggjum við til að það verði alvarlega skoðað að verja báða strauma en þetta eru ekki einu breyturnar í þessu samhengi og því þarf að huga að fleiri atriðum. Stundum kemst slíkt einfaldlega ekki fyrir og þá þarf að skoða hver gatnamót fyrir sig. Fleiri breytur sem við skoðuðum ekki sérstaklega er til dæmis fjöldi gangandi eða hjólandi vegfarenda sem fara um gatnamótin. Það gæti aukið líkur á alvarlegum slysum og áhugavert væri að vita hver sá fjöldi er,“ sagði Davíð enn fremur.
Áhugasamir geta nálgast frekari upplýsingar á vef VSÓ.