Bjarni hættur nái Guðlaugur kjöri

Bjarni Benediktsson hættir í stjórnmálum nái Guðlaugur Þór kjöri.
Bjarni Benediktsson hættir í stjórnmálum nái Guðlaugur Þór kjöri. mbl.is/Ágúst Óliver

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálftæðisflokksins, sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að hans tíma í stjórnmálum væri lokið færi Guðlaugur Þór Þórðarson með sigur af hólmi í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins. Færi svo reri Bjarni á ný mið með sína reynslu

„Já, ég hef heyrt í honum,“ svaraði Bjarni, spurður hvort Guðlaugur Þór hefði tjáð honum hvort af framboði hans yrði, „verður ekki Guðlaugur bara að fá að eiga sín „móment“,“ hélt hann áfram, spurður um niðurstöðuna þar.

„Ég hef alltaf verið skýr með það að það á enginn tilkall til þess að halda formannsstólnum í Sjálfstæðisflokknum eða öðrum kjörnum embættum, það á enginn tilkall til þess að vera kosinn á Alþingi yfir höfuð eða fá einhver embætti innan þingflokksins eða annars staðar,“ sagði ráðherra.

Hvað veldur hræringum?

Sagði hann það heiður að hafa fengið að vera formaður flokksins svo lengi, kjörtímabil væri nýhafið og hann á fullum dampi að vinna að framgangi stefnumála flokksins. „Og mér finnst það hafa gengið vel, við höfum skilað frábærum árangri og það er árangur sem ég tel að eigi að vera aðalmælikvarðinn á það hvort maður geti verið sáttur við sitt framlag,“ hélt Bjarni áfram.

Þar væri mikilvægt að líta til þess hvernig fólkið í landinu hefði það, hvernig lífskjör hefðu þróast, hvernig byggt hefði verið upp fyrir framtíðarkynslóðir og hvernig gengið hefði að hlúa að samfélaginu. „Ég er mjög stoltur af því hvernig sú staða lítur út í dag.“

Hvað skyldi þá valda þeim hræringum sem uppi eru innan flokksins?

„Við höfum átt samtöl núna allra síðustu daga, við Guðlaugur Þór, og þar hafa ekki komið fram neinar ábendingar eða gagnrýni sem varða málefnalegar áherslur Sjálfstæðisflokksins,“ segir Bjarni og kveðst vel geta skilið það væri honum sagt að flokkurinn væri á rangri braut og þyrfti að breyta um stefnu. Svo væri þó ekki.

Frekar væri um innra starf flokksins að ræða og verkaskiptingu milli fólks. Vel mætti ganga til kosninga um þau mál. „En það sem ég mun leggja áherslu á í minni pólitík hér eftir sem hingað til og í aðdraganda þessa fundar og á fundinum sjálfum er að við lofuðum að skila árgangri og við erum að skila mjög góðum árangri, við getum talað um síðustu þrjú árin eða síðustu tíu árin, Ísland hefur verið í stöðugri sókn,“ sagði ráðherra.

Gamaldags valdabarátta

Kvaðst hann ekki hafa orðið var við gagnrýni í opinberri umræðu af hálfu Guðlaugs Þórs á málefnalegar áherslur ríkisstjórnarinnar eða Sjálfstæðisflokksins. „Þetta er bara gamaldags valdabarátta, við skulum bara segja það eins og er,“ sagði Bjarni.

Hann teldi leiðina til árangurs ekki að fara í fylkingar heldur öfugt, snúa bökum saman og taka það upp á yfirborðið sem menn telji geta orðið stefnu flokksins til framdráttar. „Ég held að átök innan flokksins séu ekki líkleg til að auka fylgið, ef flokksmenn geta ekki staðið saman, af hverju ætti þá fólk að standa með flokknum?“ spurði Bjarni.

„Ég legg bara aftur og aftur áherslu á það að ég sækist eftir endurkjöri af mikilli auðmýkt, ég lít langt í frá á það sem sjálfsagðan hlut að fá endurnýjað umboð, ég hef aldrei gert það,“ sagði hann.

Hvernig færi þá ef sitjandi formaður tapar formannskjöri, er honum sætt sem ráðherra áfram?

„Ég ætla ekkert að vera að draga fjöður yfir það, ef mínum tíma sem formanns lýkur í þessu kjöri, þá er mínum tíma í stjórnmálum bara lokið. Mér finnst það bara eðlilegt og ég myndi alveg geta sætt mig við það [...] Af hverju segi ég að ég geti sætt mig við það? Það er vegna þess að ekkert er mínum vilja framar en það að vilji flokksmanna ráði för,“ sagði Bjarni.

Yngri en Guðlaugur Þór

Væri það vilji flokksmanna að hann viki úr formannssætinu sætti hann sig að sjálfsögðu við það. „Í ljósi þess hversu lengi ég hef verið að, og ég er samt sem áður ungur maður, ég er meira að segja yngri en Guðlaugur Þór,“ sagði Bjarni glettnislega, „þá er ég með fulla starfsorku, ég hef örugglega aldrei á minni starfsævi haft eins mikla reynslu og eins mikla þekkingu á því sem ég er að gera og í dag.“

Sagðist Bjarni ekki hafa fundið fyrir miklu aðhaldi frá stjórnarandstöðunni á þessu kjörtímabili, slíkt aðhald hefði þó oft fyrr á tíð kveikt honum eldmóð til að standa sig betur. Sagði hann verkefnin vega þyngst, nú þyrfti að ná niður verðbólgunni sem væri risastórt kjaramál fyrir heimilin auk þess sem kjarasamningar væru fram undan.

Spyrill sneri talinu á ný að þeim ásetningi Bjarna að yfirgefa stjórnmálin yrði hann undir í formannskjöri.

„Já, það er bara augljóst, þá er það lokapunkturinn,“ svaraði Bjarni, „þá fer ég með alla þessa þekkingu og reynslu og starfskraft inn á nýjan vettvang.“ Hann væri vissulega að berjast fyrir sinni stöðu en aðalatriðið væri að hugsanlegar breytingar kæmu sér vel fyrir flokkinn. „Þegar flokkurinn nær sér á strik sjáum við framfarir í landinu,“ sagði Bjarni Benediktsson á Sprengisandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert