Inga Þóra Pálsdóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson, sem er nú í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins, telur að flokkurinn eigi mikið inni. Hann vill styrkja innra starf flokksins enn frekar og telur að flokkurinn þurfi að vera trúr sinni grundvallarstefnu. Hann vill leggja meiri áherslu á lága skatta og ráðdeild í ríkisrekstri.
Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármálaráðherra, ætlar að hætta í pólitík nái Guðlaugur kjöri um helgina.
Spurður hvort hann hefði áhuga á embætti Bjarni segir Guðlaugur:
„Við skulum bara taka eitt skref í einu og við skulum byrja á því að fara á landsfund og kjósa. Ef einhver staða kemur upp, sem að vitum ekki, þá þarf auðvitað bara að setjast yfir það.“
Óljóst hefur verið hvenær Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, taki við ráðherraembætti. Talað var um að hún myndi taka við af Jóni Gunnarssyni í dómsmálaráðuneytinu eftir 12 til 18 mánuði af kjörtímabilinu. Spurður hvort Guðrún Hafsteinsdóttir muni taka við embætti um leið og 12 mánuðir eru liðnir, segir Guðlaugur Þór:
„Bjarni var mjög skýr um það að Guðrún Hafsteindóttir yrði ráðherra og þá verður Guðrún Hafsteindóttir auðvitað ráðherra. Mín skilaboð í þessu eru þau að þegar menn fara í breytingar þá eiga menn að gera það eins sjaldan og hægt er og það á að vera skýrt því að svona óvissa um það skapar ekki gott andrúmsloft.“