Geir Sveinsson, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, segir að þrátt fyrir að rusl sé reglulega tínt í Reykjadal, hafi Hjálparsveit skáta í Hveragerði stundum komið niður með fjóra svarta ruslapoka fullla af rusli, fötum og handklæðum sem gestir hafa skilið eftir.
„Það segir sig sjálft að þar sem Reykjadalurinn liggur að Hveragerði er langmesta umferðin þar í gegn. Notkun á dalnum hefur aukist gríðarlega, ekki eingöngu á meðal ferðamanna heldur meðal Íslendinga líka,“ segir Geir í samtali við mbl.is.
Geir segir að nú sé búið að gera samning á milli Hveragerðisbæjar og hjálparsveitarinnar um reglubundið eftirlit í Reykjadal.
„Það er reglulega farið upp en því miður, út af ásókn, getur verið erfitt að vita nákvæmlega hvernig umferð um dalinn er og hvernig fólk gengur um.“
Síðasta laugardag vakti slæm umgengni í Reykjadal athygli á myndum sem Krzysztof Bronszewski tók þegar hann fór út að hlaupa um svæðið.
Geir segir að dalurinn hafi síðast verið hreinsaður tveimur dögum áður en myndirnar voru teknar og að hann hafi síðan verið hreinsaður aftur daginn eftir.
„Það verður að segjast eins og er að það eru pínu vonbrigði hvernig fólk tekur ákvörðun um það að ganga um og skilja eftir sig gríðarlega mikið af fatnaði og sérstaklega handklæðum,“ segir Geir.
Hann segir að stundum hafi hjálparsveitin komið niður eftir með fjóra fulla svarta ruslapoka þrátt fyrir að reglulega sé verið að þrífa svæðið.
„Þetta er alveg ótrúlegt magn.“
Geir segist skilja sjónarmið Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Ölfussi, um hugmyndir um að loka dalnum hluta úr ári, ef þurfa þykir.
„Hann er kannski fyrst og fremst að hugsa um það að átroðningurinn verði ekki það mikill að það fari að sjá á dalnum. Auðvitað þarf að reyna að stýra því eins vel og við getum. Hins vegar held ég ef þetta snúist um að halda honum hreinum held ég að það eigi að vera hægt að gera það með þessu framtaki Hveragerðisbæjar og hjálparsveitarinnar,“ segir Geir.
Hann segir að af tveimur kostum sem Elliði bendir á, að takmarka umferð um dalinn eða að auka fjármagn til að bæta þjónustu í dalnum, sé Hveragerðisbær einmitt að setja aukið fjármagn til hjálparsveitarinnar til að sinna gæslunni.