Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, hefur boðað til opins fundar í dag klukkan 12.30 í Valhöll þar sem hann hyggst tilkynna ákvörðun sína um hvort hann muni bjóða sig fram í formannsembætti Sjálfstæðisflokksins eður ei. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Morgunblaðið greindi frá því í síðustu viku að ráðherrann væri alvarlega að íhuga að bjóða sig fram gegn Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra sem hefur gegnt formannsembættinu frá því árið 2009.
Síðan þá hefur Bjarni tvisvar sinnum fengið mótframboð, árið 2010 þegar Pétur Blöndal heitinn bauð sig fram og síðast árið 2011 þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir bauð sig fram. Bjarni hafði betur í bæði skiptin.
Guðlaugur Þór hefur lítið viljað tjá sig við blaðamenn um mögulegt framboð en hefur þó staðfest að þetta sé ákvörðun sem hann hefur verið að íhuga.