Nóg var um að vera í Partýbúðinni fyrir helgi er blaðamann bar að garði og fljótt á litið 50 til 70 manns í röð inni í búðinni Valgerður María Gunnarsdóttir, verslunarstjóri Partýbúðarinnar, sagði hrekkjavökuna vera orðna langstærstu hátíðina hjá þeim. Hún segir nornir, engla dauðans og hempur alltaf vera vinsælt en að það hafi áhrif á val fólks hvað sé í sjónvarpinu.
„Hrekkjavakan er orðin langstærsta hátíðin hjá okkur. Hún er öðruvísi en hinir hefðbundnu íslensku dagar þar sem um er að ræða bæði hátíð fyrir bæði börn og fullorðna. Þetta er mikil fjölskylduhátíð, fólk er mikið að skreyta húsin sín og heldur partý bæði fyrir krakkana og sjálft sig,“ segir Valgerður.
Hún segist ekki telja hversu margir komi við í búðinni fyrir hrekkjavökuna en að nóg hafi verið að gera seinustu daga og þá sérstaklega seinni partinn.
„Ég tel ekki hversu margir koma en ég held að flestir kíki við einhvern tímann yfir árið. Flestir koma þegar þeir klára vinnu en við erum orðnar vanar og erum snöggar að afgreiða,“ segir Valgerður.
Aðspurð um hvað sé vinsælast segir hún ákveðna hluti vera vinsæla ár hvert en að það hafi áhrif á val fólks hvað sé í sjónvarpinu.
„Það skiptir til dæmis máli hvað hefur verið í sjónvarpinu. Squid Game-búningar hafa verið mjög vinsælir auk þess sem dúkkubúningar hafa verið mjög vinsælir. Þetta er samt sem áður alltaf voðalega mikið það sama, nornir, englar dauðans, hempur og svoleiðis. Auk þess er vinsælt hjá fólki að kaupa stóru draugana sem hægt er að hengja utan á hús með ljósum og hljóðum, köngulóavefir og köngulær,“ segir Valgerður.