Út er komin bókin Gullöldin eftir ljósmyndarann Rúnar Gunnarsson. Myndir hans og minningar gefa innsýn í löngu liðna tíma. Rúnar fer ekki út úr húsi án þess að taka myndavélina með og þannig hefur það verið síðan hann var ungur maður. Hann segist upplifa sig eins og hálfnakinn án hennar.
„Ég er háður myndavélinni og get sagt það með sanni að myndavélin mín er huggari minn og besti vinur. Það er ekkert flóknara,“ segir hann, en fyrstu vélina fékk hann í fermingargjöf.
„En vendipunkturinn í þessu var árið 1957 þegar sett var upp sýningin Fjölskylda þjóðanna,“ segir hann en sú sýning skartaði ljósmyndum teknum af ljósmyndasmiðum í mörgum löndum, sem Edward Steichen tók saman fyrir Nútímalistasafnið í New York.
„Þetta var alþjóðleg sýning sem fór um allan heim og þar mátti sjá 503 myndir. Hugmyndin var sú að við værum, þrátt fyrir allt, öll eins. Ég fór á þessa sýningu og fékk hugljómun. Þarna var fegurðin, sannleikurinn og lífið. Það stimplaðist þarna inn í mig að ljósmyndun væri aðferðin til að skilja tilveruna. Tilveran þýtur fram hjá á ógnarhraða og mannlífið er eins og sjóðandi grautur. En svo getur maður smellt af og þá myndast andrými til að skoða tilveruna. Þá myndaðist sá hugsunarháttur sem ég hef haft frá byrjun, að ég er í raun ekki að taka myndir af fólki, umhverfi eða viðburðum, heldur andblæ tímans. Það er sambland af þessu öllu og þannig sé ég ljósmyndir og hef alltaf gert.“
Ítarlegt viðtal er við Rúnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.