Rúmlega hundrað mál skráð í dagbók lögreglu

Frá kl. 17.00–05.00 voru rúmlega 100 mál skráð í dagbók …
Frá kl. 17.00–05.00 voru rúmlega 100 mál skráð í dagbók lögreglu og sjö aðilar vistaðir í fangageymslu lögreglu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúmlega 100 mál voru skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu milli klukkan 17 í gær og 5 í morgun. Þá voru sjö vistaðir í fangageymslu á því tímabili.

Klukkan fjögur í nótt var tilkynnt um konu í annarlegu ástandi á veitingastað í miðbænum. Hún var handtekin grunuð um brot á lögreglusamþykkt og vistuð sökum ástands í fangageymslu.

Þá hafði lögregla afskipti af að minnsta kosti átta ökumönnum í gær sem eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Gripinn á 110 km/klst. þar sem hámarkshraði er 50 km/klst.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir eftir að hafa keyrt á yfir 100 km/klst. hraða innanbæjar. 

Ein bifreið var stöðvuð í Ártúnsbrekkunni á 121 km/klst. þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Ökumaður játaði brotið og var vettvangsskýrsla rituð.

Þá var 17 ára ökumaður gripinn á 110 km/klst. hraða á götu þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Sterkan áfengisþef lagði frá vitum ökumanns en áfengismælir lögreglu sýndi mælingu undir refsimörkum, segir í dagbókinni. Var það mál unnið með aðkomu móður ökumanns og verður tilkynning send til barnaverndar.

Efnin haldlögð

Laust fyrir klukkan eitt í nótt hafði lögregla afskipti af þremur mönnum á dvalarstað sínum í Hafnarfirði. Þeir eru grunaðir um vörslu fíkniefna. Vettvangsskýrsla var rituð og efnin haldlögð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert