Félagsfundur Ferðafélags Íslands fór fram 27. október síðastliðinn en rúmlega 300 manns sóttu fundinn. Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri félagsins segir 20 manns hafa sagt sig úr félaginu eftir fundinn á föstudag og því lítill hluti af heildar fjölda félaga.
„Það voru 20 manns sem sögðu sig úr félaginu eftir fundinn á föstudaginn af 10.750 meðlimum. Fyrir fundinn voru 30-40 manns sem gengu í félagið,“ segir Páll.
Á fundinum félagsins var fyrst borin undir atkvæði tillaga þess efnis að stjórnin myndi segja af sér strax og boða til aðalfundar sem var felld með yfirgnæfandi meirihluta. Þá var borin undir traustyfirlýsing við stjórn og framkvæmdastjóra félagsins sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Gustað hefur um félagið eftir að Anna Dóra Sæþórsdóttir, forseti félagsins, sagði sig úr því. Gaf hún þá skýringu á brotthvarfi sínu að hún vildi ekki starfa í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi, sem gangi þvert á hennar eigin gildi, réðu ríkjum.
Var í kjölfarið boðað til félagsfundar og tilkynnti Kristín I. Pálsdóttir að hún myndi leggja fram vantrauststillögu á stjórn Ferðafélags Íslands, vegna viðbragða félagsins við málum er varða kynferðislega áreitni og ofbeldi. Sem fyrr segir var tillögunni vísað frá, en Kristín sagði í kjölfarið að hún myndi segja sig úr félaginu.