Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá Suðurkjördæmi, segist ekki ætla sér að skipta sér af formannsslagnum innan flokksins, þar sem kosið verður á milli Bjarna Benediktssonar og Guðlaugar Þórs Þórssonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins næstu helgi. Hann er sjálfur í framboði til ritara flokksins og ætlar að einbeita sér að því.
Vilhjálmur segir að hann hafi hingað til ekki viljað styðja ákveðnar fylkingar innan flokksins og muni ekki gera það í þetta skipti heldur.
„Ég er náttúrlega í framboði til ritara núna og ritari þarf að halda utan um innra starfið að kosningum loknum. Ég ætla mér ekkert að blanda mér í þennan formannsslag heldur bara að einbeita mér að ritaraframboðinu,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.
„Það mæðir mikið á ritaranum að fara með flokkinn sameinaðan áfram eftir landsfundinn og þarf að vinna með þeirri forystu sem er kjörin.“
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Norðvesturkjördæmi, segist ekki vita hvort hann muni styðja annan hvorn frambjóðandann í formannsslagnum opinberlega. Hann vill að þeir sem sækja landsfundinn kjósi, óháð því hvað þingmenn ætli að gera.
„Ég er svolítið þannig stemmdur að þetta er komið í hendurnar á landsfundinum, þá talar landsfundurinn, óháð því hvað okkur þingmönnunum finnst,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is.
„Mér finnst það beggja handa járn að fara að stilla þingmönnum upp í fylkingar,“ segir Haraldur. „Ég er meira að hugsa um að leyfa fólki að gera þetta upp við sig heldur en að ég sé að leggja einhverja línu.“
„Við þurfum að vinna með þeim báðum eftir kosningar, sama hvernig þetta fer.“
Haraldur segist ekki vita hvort hann muni gefa einhverja opinbera yfirlýsingu hvað varðar formannsslaginn og bætir við: „Ég á góðan kunningsskap við þá báða.“
„Ég var ekkert endilega spenntur fyrir því að það færi fram eitthvað uppgjör á þessu. Ég hef ekki áhrif á það, það er núna lýðræðið sem mun tala og ég mun taka þátt í kosningunni.“
Enn sem komið er hefur enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins gert stuðning sinn til Guðlaugs Þórs opinberan. Á hinn bóginn hafa tíu þingmenn flokksins sagst ætla að styðja Bjarna.
Ásmundur Friðriksson sagði í samtali við mbl.is að á föstudaginn verði hann búinn að gera upp við sig hvern hann muni styðja.
Þingmennirnir Njáll Trausti Friðbertsson og Diljá Mist Einarsdóttir hafa ekki sagt til um hvorn þau vilja sjá kjörinn formann Sjálfstæðisflokksins.