Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir algjöran einhug hafa verið í samninganefnd um niðurstöðu kröfugerðar Eflingar sem send var til Samtaka atvinnulífsins í dag. Hún segir kröfurnar raunhæfar þar sem byggt sé á módeli lífskjarasamningsins um krónutöluhækkanir.
„Það var algjör einhugur í samninganefnd Eflingar um þessa niðurstöðu sem bæði byggist á vinnu samninganefndarinnar og þessari stóru kjarakönnun sem við framkvæmdum og metþátttaka var í. Einhugur og mikill vilji félagsfólks til þess að standa saman og berjast fyrir réttlátari skiptingu gæðanna og því að fá sinn skerf af hagvextinum sem vinna þeirra skapar. Ég tel að það muni verða til þess að við munum ná miklum árangri í vetur,“ segir Sólveig.
Sólveig telur kröfur Eflingar vera raunhæfar og telur krónutöluhækkanir vera sérlega góða leið, sérstaklega í því árferði sem nú ríkir. Hún segir Eflingarfólk vilja sjá til þess að kaupmáttur lægri launa og meðallauna sé tryggður.
„Við teljum þetta svo sannarlega vera raunhæfar kröfur. Við erum búin að skoða þetta mjög vel og byggjum á módeli lífskjarasamningsins þar sem farið var fram á krónutöluhækkanir en þær eru sérstaklega góðar í því ástandi sem nú ríkir. Þær tryggja það að þeir sem þurfa sannarlega mest á hækkununum að halda fái þær og sporna gegn launaskriði. Þessi aðferð hefur sýnt sig að hún tryggir að láglaunahóparnir komi vel út úr samningunum en við viljum að kaupmáttur lægri launa og meðallauna sé tryggður. Við viljum að viðurkenning náist á því að fólk sem stritar á lægstu launum og nær ekki endum saman, að slíkt ástand sé ólíðandi. Það á að vera verkefni þessara kjarasamninga að uppræta þá miklu skömm,“ segir Sólveig.
Hafnarstarfsmenn hjá Eimskipi og Samskipi funduðu um helgina. Til greina kemur að stéttin segi sig úr Eflingu. Innt eftir svörum sagði Sólveig að þetta hefði ekki verið rætt á fundum samninganefndar og vildi hún því ekki tjá sig um málið.