Réðst með ofbeldi gegn móður sinni

mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir brot í nánu sambandi, kynferðisbrot gagnvart barni og brot gegn valdstjórninni. 

Maðurinn var enn fremur dæmdur til að greiða 1,4 milljónir í bætur og tvo þriðju hluta alls sakarkostnaðar, en samtals nam um 7,6 milljónum kr. 

Héraðssaksóknari ákærði manninn í júní fyrir brot sem hann framdi á þessu ári og árið 2020. Ákæran var í þremur liðum en í þeim fyrsta var hann sakaður um kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa árið 2020 tekið utan um stúlku, kysst hana á hálsinn og reynt að kyssa hana á munninn. 

Þá var hann ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa í mars á þessu árið hótað lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra lífláti. 

Loks var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa í apríl sl. veist með ofbeldi að móður sinni. Hann hafi ógnað lífi, heilsu og velferð hennar. Hann sló ítrekað með krepptum hnefum í líkama, andlit og höfuð. Þá sparkaði hann í líkama hennar og tók hana ítrekað hálstaki þannig að hún missti meðvitund. Þá hótaði hann henni ítrekað lífláti. 

Alvarleg atlaga en ekki tilraun til manndráps

Dómstóllinn sýknaði aftur á móti manninn af ákæru um tilraun til manndráps. Segir í dómnum að ekki sé hægt að slá því föstu „að atlaga ákærða hafi verið svo ofsafengin að hún hefði getað leitt til lífshættu í samræmi við ofangreint né heldur verði af því ráðið að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að valda andláti brotaþola. Í ljósi þess telst ósannað að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 211., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga og er hann sýknaður af því.“

Þó er tekið fram að það sé ljóst að „hálstak eins og brotaþoli lýsti og telst sannað samkvæmt framangreindu telst vera hættuleg aðferð. Þá var atlagan einnig alvarleg í ljósi þess að ákærði beindi höggum sínum m.a. að andliti og höfði brotaþola.“

Þá telur dómurinn það auka á alvarleika brotsins að árásin beindist að aldraðri og veikri móður mannsins sem var í sérstaklega viðkvæmri stöðu eftir að hafa nýverið misst maka sinn og að árásin stóð yfir í langan tíma, eða um klukkustund samkvæmt framburði vitnis.

Þyngri dómur vegna alvarleika brotanna

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn eigi að baki nokkurn sakaferil. Hann var m.a. dæmdur í 12 mánaða fangelsi árið 2019 en fékk síðar reynslulausn. Þá reynslulausn rauf hann nokkrum mánuðum síðar.

„Við ákvörðun refsingar ákærða er til þyngingar litið til eðlis og alvarleika þeirra brota sem hann hefur verið sakfelldur fyrir,“ segir í dómnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert