Sigurbogi við lendingu

Við störf að fljúga yfir eldgosið í Geldingardölum.
Við störf að fljúga yfir eldgosið í Geldingardölum. Ljósmynd/Aðsend

Þórir Brynjúlfsson, flugstjóri hjá Icelandair, flaug sína síðustu flugferð í gær og segir hann tilfinningarnar hafa verið blendnar. Hann fékk frábærar móttökur við lendingu á Keflavíkurflugvelli og kveðst þakklátur fyrir tímann. Hann hefur hugsað sér að kaupa sér hús í evrópskri sveit og njóta lífsins.

„Eins og dagurinn í gær, þetta var frábær dagur en þetta eru alltaf blendnar tilfinningar. Ég sagði við flugumferðarstjórann, þegar hann tók á móti mér með blómum, að þetta væri búinn að vera svo æðislegur dagur að ég ætlaði að hætta við að hætta.“ segir Þórir í samtali við mbl.is.

Sigurbogi við lendingu

Við lendingu var myndaður sigurbogi, bæði í Kaupmannahöfn og í Keflavík. Þórir segir að þótt honum finnist flugið alls ekki vera orðið leiðinlegt sé löngunin til að hætta orðin yfirsterkari.

„Þetta er oft gert þegar flugmenn eru að hætta og þá er myndaður sigurbogi með tveimur slökkviliðsbílum. Þeir fengu veður af því að ég væri að hætta í Kaupmannahöfn og mynduðu þennan sigurboga einnig þar. Ég tók mér bessaleyfi og tók einn hring yfir borgina þegar ég hætti og voru farþegarnir mjög ánægðir með þetta. Ég lít þannig á þetta að þó að vinnan sé ekkert orðin leiðinleg þá er kannski orðin meiri ástæða til þess að hætta heldur en hitt. Ég er einnig að hugsa um að komast í betra loftslag og ætla að fá mér hús í evrópskri sveit, annað hvort á Ítalíu eða Frakklandi,“ segir Þórir.

Byrjaði ferilinn í innanlandsfluginu

Þórir segir áskoranirnar sem atvinnuflugmenn á Íslandi takast á við vera með þeim mestu í heiminum. Hann segir að þrátt fyrir það séi það yfirleitt raunin með alla sem byrja í fluginu að þeir fái mikinn áhuga á því. Hann segir afar eftirminnilegt þegar faðir hans, Brynjúlfur Thorvaldson, flaug sína síðustu flugferð en Þórir fékk að fljúga það með honum.

„Að fljúga sem atvinnuflugmaður á Íslandi, þá ertu með mestu áskoranir í heiminum. Ég byrjaði í innanlandsfluginu og byrjaði í F-27 og flaug með pabba seinasta flugið en það var árið 1988 sem hann hætti. Ég ætlaði mér aldrei að fara í flugið þó hann væri í þessu en mér fannst þetta mjög skemmtilegt. Það er yfirleitt með alla sem byrja í þessu að þeir fá áhuga á þessu en þetta er auðvitað mjög spennandi starf, starfið er gott en hefur auðvitað sínar áskoranir," segir Þórir. 

Þórir segir að það að fljúga sem atvinnuflugmaður á Íslandi …
Þórir segir að það að fljúga sem atvinnuflugmaður á Íslandi sé með mestu áskorunum í heiminum. Ljósmynd/Aðsend

Hefur upplifað ýmislegt á löngum ferli

Þórir hefur flogið víða og um tíma flaug hann mikið á fjarlægar slóðir. Hann segist hafa upplifað bæði það besta og versta en kveðst þakklátur fyrir upplifanirnar.

„Það var tímabil þar sem það var mjög mikið að gera og þá vorum við út um allt, t.d. mikið í Afríku um tíma. Þá vorum við að fljúga fyrir félög sem hafa ekki öll tilskilin leyfi til þess að fljúga inn til allra ríkja. Þá taka þau vélar á leigu frá öðrum félögum sem eru með öll tilskilin leyfi og fá aðra til að fljúga fyrir sig. Við vorum t.d. mikið niðri í Venesúela um tíma og flugum þaðan til Kúbu. Þá vorum við staðsettir í Havana sem var virkilega skemmtilegt. Maður hefur í raun séð bæði það besta og versta," segir Þórir.

Þórir hefur ferðast víða á löngum starfsferli en á þessari …
Þórir hefur ferðast víða á löngum starfsferli en á þessari mynd er hann staddur í Afríku. Ljósmynd/Aðsend

Hleypur hvar sem hann er staddur

Þórir er mikill hlaupari og hleypur hvar sem hann er staddur í heiminum. Hann hefur hlaupið í nánast hverju einasta landi og heimsálfu sem hann hefur komið til.

Þórir er mikill hlaupari og hefur hlaupið í nánast hverju …
Þórir er mikill hlaupari og hefur hlaupið í nánast hverju einasta landi og heimsálfu sem hann hefur komið til. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hleyp meira en annan hvern dag og lyfti í WorldClass. Ég hef tekið þátt í mörgum götuhlaupum og hef eiginlega hlaupið í hverju einasta landi og heimsálfu sem ég hef komið í. Það verður þannig þegar þú ferð til sömu borganna að þú ferð mikið sömu hlaupaleiðirnar eins og þegar ég fer til Boston þá hleyp ég mikið niður við Charles River,“ segir Þórir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert